Aron vann en Gylfi tapaði

Gylfi Þór Sigurðsson og Aron Einar Gunnarsson á góðri stundu.
Gylfi Þór Sigurðsson og Aron Einar Gunnarsson á góðri stundu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landsliðsmennirnir Aron Einar Gunnarsson og Gylfi Þór Sigurðsson spiluðu báðir æfingaleiki með sínum liðum í dag, hálfum mánuði áður en keppni hefst í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, og var niðurstaðan ólík.

Báðir spiluðu þeir í rúmar 60 mínútur með liðum sínum, Aron með Cardiff sem vann enska C-deildarliðið Burton Albion 5:1 en Gylfi með Everton sem tapaði 4:1 fyrir franska liðinu Rennes.

Lið þeirra beggja hefja keppni í úrvalsdeildinni laugardaginn 11. ágúst, bæði á útivelli. Aron og félagar í Cardiff sækja Bournemouth heim og Gylfi og félagar í Everton mæta nýliðum Wolves.

Birkir Bjarnason spilaði í 77 mínútur með Aston Villa sem vann Dynamo Dresden 2:1 í Þýskalandi og Jón Daði Böðvarsson síðustu 25 mínúturnar með Reading sem tapaði 0:4 fyrir Crystal Palace. Þeir hefja báðir keppni í ensku B-deildinni um næstu helgi. Reading spilar þá upphafsleik tímabilsins  gegn Derby á föstudagskvöldið en Aston Villa leikur ekki fyrr en á mánudagskvöld og þá gegn Hull City á útivelli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert