Grunnskólakennari á Nesinu datt í lukkupottinn

Birna Rún ætlar á leikinn ásamt kærasta sínum.
Birna Rún ætlar á leikinn ásamt kærasta sínum. Samsett mynd

Birna Rún Erlendsdóttir, grunnskólakennari við Mýrarhúsaskóla á Seltjarnarnesi, datt svo sannarlega í lukkupottinn á dögunum þegar hún vann tvo miða á úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu sem fram fer á Wembley þann 1. júní næstkomandi, sama dag og Íslendingar kjósa sér nýjan forseta. 

Birna Rún trúði vart sínum eigin eyrum þegar gleðitíðindin bárust, enda ekki á hverjum degi sem maður hreppir aðalvinninginn í gjafaleik á Facebook. 

„Ég hef aldrei unnið“

„Þetta kom mér mjög á óvart. Ég hef aldrei unnið nokkurn skapaðan hlut,“ segir Birna Rún og hlær. 

„Ég sá leikinn auglýstan á Facebook-síðu Ölgerðarinnar fyrir nokkrum vikum síðan og ákvað að skrá mig til leiks, bara að gamni mínu.

Það fyndna er að akkúrat einni viku áður en ég skráði mig í pottinn þá spurði ég kærastann minn, Bessa Gaut Friðþjófsson ljósmyndara, upp úr þurru, um stóra drauminn eða draumaferðalagið. 

Svar hans var, ótrúlegt en satt: „Að fara á úrslitaleik Meistaradeildarinnar“, sem er nú að rætast.“

Birna Rún segir þetta hafa verið skrifað í skýin. „Ég er algjör tilviljanakona og vil meina að ég finni svona á mér, en til þess að taka þátt þá þurfti ég að útskýra ástæðuna fyrir því af hverju ég ætti skilið að vinna. Ég sagði þetta vera ævilangan draum kærasta míns.“

Bjóst alls ekki við símtalinu

Þann 17. apríl síðastliðinn fékk Birna Rún góðu fréttirnar, en Halldóra Tryggvadóttir, vörumerkjastjóri óáfengra drykkja hjá Ölgerðinni, fékk það skemmtilega verkefni að tilkynna henni að hún hefði unnið í Facebook-leiknum. 

„Þetta var skrýtinn dagur. Ég er aldrei við símann á virkum dögum frá kl. 08 til 14, þá er ég að kenna. Ég kíki þó oft í símann í kaffipásum og hádegishléum, eins og flestallir gera. Þennan umrædda dag sé ég þó nokkur „missed calls“ frá símanúmeri sem ég kannaðist ekki við. 

Parið er spennt að heimsækja Wembley.
Parið er spennt að heimsækja Wembley. Ljósmynd/Aðsend

Ég endaði á að fletta því upp og sá að símanúmerið tilheyrði Halldóru Tryggvadóttur og það fyndna er að fyrrverandi samstarfskona mín heitir Halldóra Tryggvadóttir og taldi ég í fyrstu að hún væri að reyna að ná í mig, en skildi þó ekki af hverju. Það er góður tími liðinn frá því við unnum saman,“ útskýrir Birna Rún.

„Eftir smá tíma náði ég sambandi við Halldóru Tryggvadóttur, starfsmann Ölgerðarinnar. Hún spurði mig hvort ég hafi verið að taka þátt í leik á vegum Ölgerðarinnar og Pepsi Max, það er það eina sem ég man frá þessu símtali. Restin vistaðist ekki,“ segir hún og hlær. 

Birna Rún fékk að heyra að hún hefði unnið tvo miða á úrslitaleik Meistaradeildarinnar, flug og hótelgistingu í Lundúnum og samgöngur til og frá flugvellinum. 

Kærastinn varð klökkur

Birna Rún er ötul áhugakona um fótbolta, fyrrverandi leikmaður Gróttu og dyggur stuðningsmaður Real Madrid. 

„Pabbi smitaði mig af fótboltaáhuga þegar ég var ung og er hann helsta ástæða þess að ég styð Real Madrid. Hann er gallharður stuðningsmaður spænska deildarliðsins,“ segir Birna Rún sem lagði skóna á hilluna árið 2019 eftir 15 ánægjuleg ár í fótboltanum. 

„Pabbi vill að sjálfsögðu fara á leikinn ef að Real Madrid spilar til úrslita, sem er möguleiki, en liðið er komið í undanúrslit eftir sigur á Manchester City. Ég efast um að kærastinn myndi samþykkja það,“ segir hún og hlær. 

Birna Rún spilaði lengi með Gróttu.
Birna Rún spilaði lengi með Gróttu. Ljósmynd/Aðsend

Kærasti Birnu Rúnar er einnig mikill fótboltaaðdáandi en hann styður Barcelona og Arsenal. 

„Bessi Gautur varð klökkur við að heyra gleðitíðindin en dagurinn var átakanlegur fyrir hann þar sem Barcelona og Arsenal féllu úr leik sama dag og ég vann. Hvorugt þeirra spilar því til úrslita á Wembley þann 1. júní,“ segir hún. „Við eigum eftir að skemmta okkur konunglega, sama hvað, og verðum að sjálfsögðu búin að kjósa.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Það er gott að þekkja sín eigin takmörk og þá ekki síður að virða þau þegar á það reynir. Ef þú fæst ekki við það sem þú hefur áhuga á getur lífið svo sannarlega verið letjandi.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Lone Theils
4
Anna Sundbeck Klav
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Það er gott að þekkja sín eigin takmörk og þá ekki síður að virða þau þegar á það reynir. Ef þú fæst ekki við það sem þú hefur áhuga á getur lífið svo sannarlega verið letjandi.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Lone Theils
4
Anna Sundbeck Klav