Grunaður um að brugga Selenskí launráð

Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, á blaðamannafundi fyrr í mánuðinum.
Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, á blaðamannafundi fyrr í mánuðinum. AFP

Karlmaður hefur verið handtekinn í Póllandi, grunaður um að vera viðriðinn áform rússneskra leyniþjónusta um að ráða af dögum úkraínska forsetann Volodimír Selenskí.

Frá þessu greindu pólskir og úkraínskir saksóknarar síðdegis í gær. Karlmaðurinn er Pólverji og nafngreindur aðeins sem Pawel K.

Er hann grunaður um að hafa útvegað rússneskri herleyniþjónustu upplýsingar og hjálpað rússneskum sérsveitum að leggja á ráðin um mögulegt tilræði við Selenskí.

Falið að safna og miðla upplýsingum

Saksóknarar í Úkraínu höfðu upplýst starfsbræður sína í Póllandi um athafnir mannsins, sem gerði þeim kleift að safna nauðsynlegum sönnunargögnum, að því er fram kemur í sameiginlegri yfirlýsingu þeirra.

Yfirsaksóknari Úkraínu, Andrí Kostín, segir að þeim grunaða hafi verið falið að safna og miðla upplýsingum um öryggi á Rzeszow-Jasionka-flugvellinum í suðausturhluta Póllands.

Selenskí á oft leið um flugvöllinn á ferðum sínum til annarra landa. Þá er hann oft nýttur undir erlenda erindreka og mannúðaraðstoð á leið inn í Úkraínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert