Andlát: Haraldur Júlíusson

Haraldur Júlíusson, netagerðarmeistari í Eyjum og kunnur knattspyrnumaður á árum áður, lést 20. apríl síðastliðinn, 76 ára að aldri.

Haraldur fæddist 11. september 1947 í Vestmannaeyjum. Foreldrar hans voru Júlíus Hallgrímsson, skipstjóri og netagerðarmeistari, og Þóra Haraldsdóttir, húsmóðir og handverkskona.

Haraldur ólst upp í Eyjum, tók þar gagnfræðapróf og fór síðan í Iðnskólann í Eyjum þar sem hann lærði netaiðn. Hóf störf hjá föður sínum í þeirri grein og rak síðan um árabil netaverkstæði ásamt bróður sínum og frændum.

Haraldur gerði garðinn frægan í knattspyrnu með Eyjamönnum og fékk þar viðurnefnið „gullskalli“. Hann var í liði ÍBV sem fór upp í efstu deild 1968, varð bikarmeistari það ár og aftur 1972. Hann skoraði bæði mörk ÍBV þegar liðið vann FH 2:0 í bikarúrslitaleiknum 1972, síðasta úrslitaleiknum sem var leikinn á Melavellinum í Reykjavík.

Hann var í hópi markahæstu manna efstu deildar 1970 og 1971, níu mörk hvort ár, og skoraði 36 mörk í 91 leik fyrir ÍBV í efstu deild frá 1968 til 1975. Mörg þeirra voru skallamörk og viðurnefnið er þaðan komið.

Þá varð Haraldur fyrsti leikmaður ÍBV til að skora fjögur mörk í einum leik, gerði það gegn Víkingum árið 1970 er ÍBV vann leikinn 6:4. Sama ár var hann kjörinn knattspyrnumaður ársins í Eyjum.

Haraldur var vel liðtækur í golfi og varð í þeirri íþrótt níu sinnum Vestmannaeyjameistari, ásamt því að vinna til fjölmargra verðlauna fyrir hin ýmsu golfmót.

Eftirlifandi eiginkona Haraldar er Valgerður Ó. Magnúsdóttur. Börn þeirra eru þrjú: Magnús Hlynur, f. 1975, Guðrún, f. 1979, og Berglind Þóra, f. 1992. Barnabörnin eru sjö talsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert