Markmiðið að ná einu prósenti

mbl.is/Ernir Eyjólfsson

„Vitanlega kemur alltaf nýtt regluverk inn en það ætti ekki að vera neitt stórkostlegt mál að koma þessu í ásættanlegt horf,“ segir Páll Þórhallsson, formaður stýrihóps um framkvæmd samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES), í samtali við mbl.is en hann flutti í dag erindi á opnum fundi á vegum Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands og sendinefndar Evrópusambandsins á Íslandi sem fram fór í Norræna húsinu um skýrslu stýrihópsins.

Skýrslan fjallar einkum um svonefndan innleiðingarhallda á lagagerðum frá Evrópusambandinu sem teknar eru upp í EES-samninginn og eru í kjölfarið innleiddar í aðildarríkjum samningsins. Þar á meðal hér á landi. Stjórnvöld hér á landi hafa verið talsvert á eftir í þeim efnum á liðnum árum en lögð hefur verið aukin áhersla á það undanfarin misseri að minnka fjölda þeirra gerða sem ekki hafa verið innleiddar á réttum tíma en verkefni stýrihópsins var að fara yfir framkvæmd EES-samningsins og koma með tillögur að úrbótum í þessum efnum.

Frétt mbl.is: Vilja færa þungann framar í ferlið

Páll segir að markmið stjórnvalda sé að koma innleiðingarhallanum niður í 1% en hann er nú 2,3%. Tekist hafi að lækka hann verulega undanfarin misseri en meira þurfi til. Þegar hafi verið gripið til aðgerða til þess að hraða innleiðingu lagagerða sem taka þurfi upp í gegnum EES-samninginn og tillögur að frekari úrbótum séu settar fram í skýrslu stýrihópsins. Síðan þurfi auðvitað að halda vel á spöðunum til að tryggja að hallinn aukist ekki aftur.

Meðal þess sem lagt er til í skýrslunni er að ríkisstjórnin samþykki árlega í samráði við Alþingi og hagsmunaaðila lista yfir þau mál í lagasetningarferli hjá Evrópusambandinu sem talin eru forgangsmál út frá íslenskum hagsmunum og að ráðuneytin leggi áherslu á að hefja vinnu við innleiðingu gerða fyrr en raunin er í dag. Stefnt sé að því að undirbúningi sé að mestu lokið þegar gerð er samþykkt á vettvangi sameiginlegu EES-nefndarinnar.

Páll segir að það sé vitanlega alltaf grundvallarspurning hvort talin sé ástæða til að vera aðili að milliríkjasamstarfi eins og EES-samningnum í ljósi hagsmuna lands og þjóðar. Hins vegar sé ljóst að aðild að slíku samstarfi feli í sér skuldbindingar. Líkt og í tilfelli EES-samningsins. Tilgangur skýrslunnar sé ekki að svara þeirri pólitísku spurningu. Hins vegar sé bent á úrbætur til þess að uppfylla betur þær skuldbindingar sem fylgja aðildinni að samningnum.

Páll Þórhallsson
Páll Þórhallsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert