Ég hata það ekkert

Elín Klara Þorkelsdóttir í sókn í kvöld.
Elín Klara Þorkelsdóttir í sókn í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Elín Klara Þorkelsdóttir er væntanlega með stáltaugar í ljósi þess að hún hefur skotið Haukum í framlengingu tvo leiki í röð gegn Fram með vítaskotum eftir að leiktíminn er liðinn.

Elín Klara átti jafnframt frábæran leik í kvöld og skoraði 7 mörk, þar af eitt úr afdrifaríku vítaskoti. Spurð hvort hún hafi gaman af því að vera sett í þessar aðstæður sagði Elín Klara þetta:

„Ég hata það ekkert. Þetta var sturlað og stúkan var geggjuð og ég var eiginlega bara glöð að fá að spila framlengingu með þennan stuðning."

Nú eruð þið 2:0 yfir og hljótið að ætla að klára þetta í næsta leik ekki satt?

„Næsti leikur verður virkilega erfiður og við erum ekki komnar með neitt því það þarf að vinna þrjá leiki til að klára þetta verkefni. Við þurfum að gíra okkur upp í það."

Þið eruð marki undir, Fram í sókn og innan við hálf mínúta eftir. Hvað fer í gegnum hugann á þessum tímapunkti?

„Þetta er bara þessi trú alveg eins og í síðasta leik. Leikurinn er ekki búinn fyrr en klukkan flautar og við höfðum bullandi trú á að ná að klára þetta.

Markmiðið var bara að taka þessa vörn og svo keyra í bakið á þeim og Berglind var með frábæra innkomu og Margrét frábær markinu og þetta var bara frábær liðsheild sem vann þennan leik," sagði Elín Klara í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert