„Áður en ég byrjaði á þessu voru frekar fáir ferðamenn sem komu hingað á Skagann“

Hilmar Sigvaldason í vitanum háa sem reistur var á stríðsárunum …
Hilmar Sigvaldason í vitanum háa sem reistur var á stríðsárunum og sá eldri og lægri er í baksýn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hilmar Sigvaldason er vitavörður í Akranesvita en í vitanum eru settir upp listviðburðir og koma margir ferðamenn til að berja augum vitann sem hefur vakið heimsathygli. Þegar haldið er upp á Skaga má enginn láta vitann fram hjá sér fara auk þess sem mikilvægt er að leyfa sér að njóta lífsins á Langasandi.

„Ég ásamt fleirum stofnaði ljósmyndafélag á Akranesi og við vorum mikið niðri á Breiðarsvæði og vorum að mynda. Einu sinni fékk félagi minn þá hugmynd að það væri gaman að fara upp á toppinn á vitanum og taka myndir yfir bæinn. Hann fer suður í Vegagerð og fær lánaða lyklana. Af því ég var formaður félagsins vildi hann að ég geymdi lyklana. Í millitíðinni fékk ég þessa hugmynd að reyna að gera þetta að ferðamannastað,“ segir Hilmar sem tók ástfóstri við vitana á Akranesi og þá hugmynd að byggja upp ferðamannabæinn Akranes.

„Áður en ég byrjaði á þessu voru frekar fáir ferðamenn sem komu hingað á Skagann. Við misstum helling af ferðamönnum þegar göngin komu því þá keyrði fólk fram hjá. Þú þarft alltaf að vera með eitthvert aðdráttarafl þegar þú ert ekki í þjóðleið. Við erum tíu kílómetra frá þjóðleið. Ég byrjaði í bjartsýni í mars 2012. Það höfðu fáir trú á því að þetta gengi upp en ég hafði trú á þessu,“ segir Hilmar. Í dag eru haldnar myndlistarsýningar og tónleikar í Akranesvita auk þess sem eftirsótt er að nýta vitann til þess að taka upp tónlist og líkir Hilmar hljómburðinum við Hallgrímskirkju.

Hilmar Sigvaldason hefur lengi haft fulla trú á Akranesvita.
Hilmar Sigvaldason hefur lengi haft fulla trú á Akranesvita.

Fallegasta útsýni á landinu

„Akranes var aldrei sérstakur ferðamannabær eins og Vík í Mýrdal, Húsavík eða Ísafjörður. Ég fékk menn frá The Guardian í heimsókn fyrir nokkrum árum og þeir gerðu grein um vitana og völdu hann einn áhugaverðasta áfangastað í heimi,“ segir Hilmar. Akranesviti er reisulegur viti eftir Axel Sveinsson. Axel teiknaði meðal annars Garðskagavita og Gróttuvita. Annar minni og eldri viti stendur stutt frá. Hilmar segir erlenda ferðamenn mynda vitana mikið sem og kirkjur.

Enn önnur rósin bættist í hnappagat Skagamanna fyrir nokkrum árum þegar baðlónið þeirra, Guðlaug, var valin ein besta baðlaug í heimi af BBC. Baðströndin Langisandur sem Guðlaug er á hefur einnig fengið Bláfána-viðurkenningu. Sjórinn og ströndin á Akranesi hefur mikið aðdráttarafl en þar er stundað sjósund allan ársins hring.

Eru allir á Skaganum í sjósundi?

„Það er starfandi sjósundsfélag á Akranesi. Það góða við Guðlaugina er að þú getur farið í sjóinn og farið svo beint í Guðlaugina. Við erum með sjö tegundir af ströndum í kringum Akranes.“

Hilmar finnur mikinn mun síðan hann byrjaði að reyna koma ferðamannastaðnum Akranesi á framfæri fyrir rúmlega áratug síðan. Ferðamenn eiga auðvelt að koma auga á fegurðina í því sem heimamönnum þykir hversdagslegt. „Akrafjallið er rosalega fallegt fjall. Það er gríðarlega flottur norðurljósastaður hér rétt fyrir utan bæinn. Við erum með eitt flottasta útsýni af landinu að mínu mati á þessu svæði. Við sjáum alla leið suður á Reykjanes og vestur á Snæfellsjökul.“

Fullkomin dagsferð

Það er kjörið að skella sér í dagsferð til Akraness, sérstaklega ef fólk er að koma af höfuðborgarsvæðinu eða nágrenni. „Flott dagskrá væri að taka Hvalfjörðinn líka með. Þar eru margar perlur líka. Þar erum við til dæmis með næsthæsta foss á Íslandi, Glym. Það er er mjög vinsæll ferðamannastaður. Svo er öll sagan í Hvalfirðinum eins og Hvítanesi, þar sem mikið umsátur var í seinni heimsstyrjöldinni. Svo eru kirkjurnar í Hvalfjarðarsveitinni. Þegar útlendingar koma um göngin upp á Akranes segi ég þeim alltaf ef þeir hafa nægan tíma að keyra Hvalfjörðinn rólega til baka.“

Þegar komið er upp á Skaga mælir Hilmar með að skoða vitana og jafnvel byggðasafnið. Að því búnu er tilvalið að hoppa út í sjó á vegum Hopplands sem opnaði nýverið en þar er hægt að hoppa úr ýmissi hæð í sjóinn. Að lokum mælir Hilmar með því að enda í pottunum í Guðlaugu. Ef fólk vill verja enn lengri tíma er tilvalið að skella sér í golf, að sögn Hilmars.

„Eini gallinn er að það er ekkert hótel á Skaganum sem er mikil synd af því þetta er svo stórt bæjarfélag,“ segir Hilmar sem er alltaf bjartsýnn og vonast til þess að úr því verði bætt í bráð. Ef hann mætti ráða væri búið að taka fyrstu skóflustungu. Hann mælir síðan með því að fá sér kaffi í Kallabakaríi og kvöldmat á Galito eða Lighthouse Restaurant.

Hilmar mælir líka með:

  • Að klifra í Akrafjalli.
  • Að prófa Slack line hjá Smiðjuloftinu.
  • Að leigja kajak og sigla.
  • Að fara á hestbak hjá Hestamiðstöðinni Borgartúni.
  • Að skoða Akraneskirkju.
Guðlaug er einstakur baðstaður.
Guðlaug er einstakur baðstaður. mbl.is/Kristinn Magnússon
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka