„Ég er búin að vera að skoða hvali síðan ég var sjö ára“

Sara Sigmundsdóttir er framkvæmdastjóri Akureyri Whale Watching auk þess sem hún vinnur sem skipstjóri fyrir fyrirtækið. Sara gæti ekki hugsað sér betri stað en Eyjafjörðinn. Þegar hún er ekki á sjó er hún á fjöllum á snjóbretti eða á fjallahjóli.

Akureyri Whale Watching er dótturfyrirtæki Eldingar sem er einmitt fjölskyldufyrirtækið. „Ég ólst upp í þessu og hef verið á bátum síðan ég var sjö ára. Ég fann mig einhvern veginn í þessu,“ segir Sara. Þá lá hins vegar ekki beint við að stýra sjálf hvalaskoðunarbátum. „Ég er með skipstjóraréttindi. Ég má vera á minni bátum fyrirtækisins og er að taka núna réttindi til að geta siglt stærri bátunum. Konunum er alltaf að fjölga. Ég ætlaði ekkert að taka þetta. Ég fékk allt í einu áhuga fyrir svona átta árum. Þegar maður er ekki með fyrirmyndir sem eru konur þá dettur manni þetta ekki strax í hug. Ég var með öll tækifærin fyrir framan mig og fólk til að kenna mér og sé alls ekki eftir því.“ 

Hvernig er að stýra bát?

„Þú þarft að hafa mjög mikla tilfinningu fyrir umhverfi sínu en það kemur allt með tímanum. Þetta er ekki auðveld vinna en þetta er mjög skemmtileg vinna. Það þarf að hafa margt í huga, veður, sjólagið og allt í kringum mann. Svo ertu líka með farþega sem þú þarft að passa mjög vel. Þó svo þú getir siglt í einhverju veðri þá þarftu að passa að það sé í lagi með farþegana.“

Hvalir eru miklir vinir Söru en hér er hún á …
Hvalir eru miklir vinir Söru en hér er hún á róðrarbretti nálægt hval.

Fær aldrei leið á hvölum

Hvað er það við hvali sem heillar fólk svona mikið?

„Hvað er það ekki? Ég er búin að vera að skoða hvali síðan ég var sjö ára og ég fæ aldrei leið á því, engar tvær ferðir eru eins. Engir tveir hvalir eru eins. Það er væntanlega stærðin sem heillar og að geta komist í svona mikla nálægð við þá í þeirra náttúrulega umhverfi. Fólk sem býr á meginlandinu hefur ekki tækifæri til að sjá hvali, þetta er nokkuð sem það dreymir um að gera. Hvalir eru bara stórmerkileg dýr,“ segir Sara.

„Mér finnst skemmtilegast að byrja að þekkja hvalina og einstaklingana. Við þekkjum hnúfubakana af afturhliðinni á sporðinum. Þeir eru með mismunandi mynstur. Við gefum öllum nöfn en sumir eru bara hérna í klukkutíma og fara en aðrir dvelja hérna í nokkra mánuði. Við byrjum að þekkja það hvernig þeir haga sér. Sumir eru mjög félagslyndir og sækjast í bátana en aðrir halda sig frá. Þeir sýna ákveðin persónuleikaeinkenni. Mér finnst það vera það skemmtilegasta við hnúfubakana hjá okkur. Þeir sýna að þeir eru ekki allir eins þó þeir séu af sömu tegundinni. Við erum mest með hnúfubaka hér í Eyjafirði. Hnúfubakarnir eru þekktir fyrir að tjá sig og það er talið að þeir syngi þegar þeir eiga í samskiptum.“

Íslendingum byrjaði að fjölga í hvalaskoðunarferðum í kórónuveirufaraldrinum og urðu þeir ekki fyrir vonbrigðum að sögn Söru. „Íslendingarnir fóru að sýna aðeins meiri áhuga. Íslendingunum sem fara í ferðirnar hjá okkur finnst þetta alltaf rosa fjör, sérstaklega fjölskyldufólki,“ segir Sara.

Sara á fjöllum.
Sara á fjöllum.

En hvar á landinu er best að sjá hvali?

„Ísland er yfir höfuð rosa góður staður til að sjá hvali. Við erum líka með fyrirtæki fyrir sunnan og það er búið að vera rosalega flott að sjá hvali þar síðasta árið. Svo er Eyjafjörðurinn frábært svæði, Skjálfandi, Ísafjarðardjúp og Snæfellsnes. Það er fullt af flottum stöðum en Norðurlandið er þekktast fyrir hvalaskoðun. Það eru mismunandi tegundir eftir stöðum. Varðandi veður og annað þá er ekkert sem segir okkur að það sé betra að sjá þá í góðu eða vondu veðri en það er auðveldara að finna þá í góðu veðri.“

Féll fyrir Norðurlandi

Það er óhætt að segja að Sara sé ástfangin af Norðurlandi. Í upphafi ætlaði hún bara að koma og vinna í nokkra mánuði og snúa svo aftur á höfuðborgarsvæðið. „Það er bara svo yndislegt að vera fyrir norðan. Nálægðin við sjóinn og fjöllin og stutt í allt. Fyrir útivistarfólk er þetta frábært. Þetta sækist ég meira í. Það er lengra að fara allt í borginni. Ég er mikið á splittbretti, brimbretti og róðrarbretti (e. paddleboard). Ég er líka á fjallahjólum. Allt sem er hægt að gera hef ég áhuga á að prófa.“

Það er stórkostlegt að skoða hvali.
Það er stórkostlegt að skoða hvali.

Hvert fer maður á fjallahjól fyrir norðan?

„Það sem er næst Akureyri er Kjarnaskógur. Það er opið uppi í Hlíðarfjalli í Bike Park. Svo eru alls konar leiðir á Tröllaskaga,“ segir hún.

„Ég bý á Hjaltaeyri. Ég mæli eindregið með því að fara á Hjalteyri eða á Hauganes í pottana. Það eru veitingastaðir á báðum stöðum líka. Það eru góðar gönguleiðir, Súlur, að fara fjallahjól, það er hægt að fara á róðrarbretti, það er svo margt hægt að gera.“

Sara er mjög mikið á sjó á sumrin en reynir eftir bestu getu að nýta birtuna til að gera eitthvað skemmtilegt. Hún og maðurinn hennar eiga þriggja ára dóttur og stundum fara þau í stutt ferðalag í húsbílnum sínum. Á veturna hefur hún meiri tíma og þá er það snjóbretti.

Sara reynir að skjótast í stuttar ferðir með fjölskyldunni í …
Sara reynir að skjótast í stuttar ferðir með fjölskyldunni í sumar.

Hvað myndir þú gera ef þú fengir frí til að gera eitthvað með fjölskyldunni í einn dag?

„Við erum með lítinn húsbíl. Við myndum fara á honum á Flateyjardal og vera þar yfir nótt. Ef maður væri í nálægð við Akureyri færi ég í Kjarnaskóg og hjólaði smá,“ segir Sara sem mælir að sjálfsögðu líka með skemmtilegum gönguleiðum í Ásbyrgi og því að koma við og skoða Dettifoss.

Sara mælir líka með:

Fjöruferð á Dalvík

Að heimsækja kaffihús Bakkabræðra, Gísla, Eiríks og Helga
og fá sér fiskisúpu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert