Margar mjög fallegar gönguleiðir

Horft yfir Rauðubjörg á Gerpissvæðinu.
Horft yfir Rauðubjörg á Gerpissvæðinu.

Hildur Bergsdóttir félagsráðgjafi flutti austur árið 2005 og er enn jafnheilluð af landshlutanum og fyrir tæpum tveimur áratugum. Hildur er útivistareldhugi og flest þau verkefni sem hún sinnir eiga það sameiginlegt að stuðla að sjálfseflingu úti í austfirskri náttúru og mörg þeirra snúa að ungmennum.

„Fjölbreytt og víða óspillt undurfögur og kraftmikil náttúran er klárlega það sem heillar mig mest. En hér er líka blómlegt samfélag sem er gott að tilheyra,“ segir Hildur þegar hún er spurð hvað það er við Austurland sem heillar.

Hildur starfar mikið með ungmennum og er starfið í raun þríþætt. „Ég var með áfanga í Menntaskólanum á Egilsstöðum sem var ætlaður ungu fólki sem glímdi við einhvers konar sálfélagslegan vanda og vildi nýta reynslunám, náttúru, útiveru, ævintýri og áskoranir til að efla sig. Það var vetrarlangur áfangi sem samanstóð af vikulegum náttúrustundum og svo að minnsta kosti einum lengri leiðangri að vori þar sem dvalið er í náttúrunni í fimm daga.

Ég er skólastýra og kennari í Náttúruskólanum en Náttúruskólinn eru nýlega stofnuð félagasamtök nokkurra reynslumikilla útiverueldhuga sem starfa með það að markmiði að efla og auðga tengsl, virðingu og þekkingu ungs fólks á náttúru og nærumhverfi sínu. Þar fáum við grunnskólahópa í náttúruupplifanir, útikennslu og jafnvel lengri óbyggðaleiðangra. Við höfum einnig prófað okkur áfram með ýmiss konar námskeið, til dæmis útikennslu og námskeið í reynslunámi fyrir grunnskólakennara og sjálfseflingarnámskeið fyrir unglinga þar sem við fléttum saman náttúru- og listmeðferð,“ segir Hildur, sem er einnig útivistarþjálfari hjá Ungmennafélaginu Þristi en þar er boðið upp á útivistarnámskeið fyrir börn.

Eru allir unglingar áhugasamir um umhverfið og náttúruna á Austurlandi?

„Það er auðvitað misjafnt en ég held ég geti fullyrt að nær alltaf tekst okkur að finna einhvern vinkil á náttúrunni sem heillar þau.“

Úr Óbyggðaferð Menntaskólans á Egilsstöðum um Víknaslóðir, Hvítserkur í bakgrunni.
Úr Óbyggðaferð Menntaskólans á Egilsstöðum um Víknaslóðir, Hvítserkur í bakgrunni.

Finnur þú mun á krökkunum þegar þau byrja og þegar þau útskrifast?

„Já það geri ég sannarlega en auðvitað er það mismunandi eftir verkefnum og þeim áherslum sem eru í starfinu. Í styttri verkefnum er það oftast aukin jákvæðni, forvitni og áhugi á að vera úti í náttúrunni, sjá og upplifa enn fleira og finna tengslin við náttúruna. En í áfanganum sem ég var með í Menntaskólanum á Egilsstöðum, þar sem ég fékk að vinna með þeim í heilan vetur, fann ég mjög mikinn mun á sjálfsþekkingu unglinganna, trú á eigin getu, samvinnuhæfni, viljanum til að taka ábyrgð, sýna frumkvæði og tengjast náttúrunni og í raun bara eiga heilsteyptari og jákvæðari mynd af sjálfum sér og lífinu. Í þessum áfanga gafst einmitt rými og tími til að vinna vel með alla þessa þætti og náttúran var nýtt í hvívetna til þess.“

Af hverju er mikilvægt fyrir okkur öll að komast í tengsl við umhverfið okkar?

„Fyrir mér erum við öll órjúfanlegur hluti af náttúrunni og hún af okkur, þó svo að nútímatækni og -líferni hafi sannarlega bjagað þau tengsl. Það er mér dýrmætt að geta lagt mitt af mörkum til að efla tengsl, skilning, virðingu og væntumþykju barna og unglinga í garð náttúrunnar og ég tel að með því megi líka styrkja þessa sömu tilfinningaþætti í eigin garð. Ef okkur tekst að ala upp kynslóðir sem búa yfir gagnkvæmri virðingu og kærleika fyrir sjálfum sér, lífinu og náttúrunni þá erum við á sama tíma að ala upp kynslóðir sem umgangast náttúruna og lífið af alúð og virðingu.“

Óspillt náttúran heillar

Hvert ferð þú þegar þú vilt hreinsa hugann og komast aðeins út í náttúruna?

„Það er svolítið misjafnt eftir árstíðum en mér finnst undurgott að vera í óspilltri náttúru þar sem ég hvorki sé né heyri neitt manngert. Ég sæki mikið í Hallormsstaðaskóg og finnst notalegt að eiga samveru með trjánum, fuglasöng og lyngangan þar. Ég bregð mér líka gjarnan á SUB eða róðrarbretti sem maður stendur á á Eiðavatni og nýt þess að róa þar um á kyrrlátum dögum umvafin birkilm og öldugjálfri. Mér finnst líka oft gott að sitja við hafið og finna kraftinn sem streymir frá því og þarf þá vissulega aðeins að færa mig um set, þar sem ég bý á Egilsstöðum, en staðir eins og Skálanes, Landsendi, Hólmanes og Stapavík eru ekki langt undan sem betur fer.“

Áttu þér uppáhaldsnáttúruperlu?

„Já alveg nokkrar, Húsavík á Víknaslóðum er í miklu uppáhaldi og ég þreytist aldrei á að dást að fjallahringnum þar í kring.“

Hvert mælir þú með að fara í göngu ef fólk vill kynnast Austurlandi í einni ferð?

„Það er ekki gott að segja en við eigum margar mjög fallegar, fjölbreyttar og tilkomumiklar gönguleiðir sem eru svo virkilega vel þess virði að fara, til dæmis í Lónsöræfi, Víknaslóðir, Stórurð og Gerpissvæðið.“

Hvað ætlar þú að gera í sumar?

„Ég verð aðeins að leiðsegja í sumar, bæði á Víknaslóðum og Gerpissvæðinu, ég kemst vonandi á Hornstrandir með manninum mínum sem er búið að vera draumur lengi og svo stefni ég á að vera bara sem mest úti í náttúrunni, fótgangandi með tjaldið mitt á bakinu og krakkana mína vappandi mér við hlið,“ segir Hildur en hún er meðal annars með upplifunarferðir fyrir konur um Gerpissvæðið ásamt Lindu Phersson með Tanna Travel þar sem markmiðið er að fara hægar yfir, njóta og næra. Auk þess fer hún í styttri og lengri göngur með barnafjölskyldum í austfirskri náttúru með Ferðafélagi Fljótsdalshéraðs.

Hildur veit fátt betra en að vera úti í náttúrunni, …
Hildur veit fátt betra en að vera úti í náttúrunni, í öllum veðrum og vindum.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert