„Ég er búinn að veiða þarna fugla í yfir 40 ár“

Feðgarnir Viggó Jónsson og Helgi Rafn Viggósson með Guðna Th. …
Feðgarnir Viggó Jónsson og Helgi Rafn Viggósson með Guðna Th. Jóhanssyni forseta.

Viggó Jónsson hefur siglt út í Drangey síðan hann var polli og starfar í dag við að fara
með ferðamenn út í eyjuna með Drangeyjarferðum ásamt syni sínum, Helga Rafni. Viggó segir að víðförlir ferðamenn líki Drangey við Galapagos-eyjar, svo heillaðir eru þeir.

„Ég er búinn að veiða þarna fugla í yfir 40 ár þannig að ég þekki dýralífið og Drangey nokkuð vel. Ég hef verið viðloðandi Drangey meira og minna allt mitt líf. Pabbi var sigmaður í Drangey og ég litaðist af því, það er dýrðarljómi í kringum þessa perlu Skagafjarðar,“ segir Viggó.

„Eins og sagt var hér í „den tid“ þá var Drangey vorbæra Skagfirðinga, það náttúrlega helgaðist af því að þarna var bæði sóttur fugl á fleka og einnig voru tekin egg til matar fyrir Skagfirðinga og Norðurland. Það sagði mér gömul kona sem nú er látin að þetta hefði verið hennar uppáhaldssjón þegar hestalestirnar komu klyfjaðar af fugli úr Drangey með nýmetið. Maður getur ímyndað sér hvernig þetta var fyrir fólk að fá nýja fæðu, menn voru ekki með frystikistur á þessum árum,“ segir Viggó og segir aðallega hafa verið sótt langvía og stuttnefja.

Drangey.
Drangey.

Heimsþekkt fólk fær ekki nóg

„Það eru tæp þúsund ár síðan Grettir kemur í Reyki og biður bóndann að ferja sig til Drangeyjar. Kannski hefur ferðaþjónustan byrjað þar, hún er örugglega eldri af því að menn fengu far til eyjar, sennilega hefur Grettir verið slyngari en menn halda,“ segir Viggó.

Viggó segir gaman að pæla í Grettissögu og það séu ekki bara Íslendingar sem eru áhugasamir um sögu Grettis Ásmundarsonar.

„Það kom eitt sinn til mín rússneskur maður sem vildi endilega koma í Drangey. Hann hafði það að markmiði að koma á sem flesta staði sem Grettir hefði verið á. Hann átti eftir að koma á þann stað sem hann hefði verið veginn. Þannig að það er ýmis tilgangur. Það er svo misjafnt hvað menn leggja upp með en það var virkilega gaman að fara með þennan mann. Hann var með Grettissögu á rússnesku. Hann hafði komið til Noregs þar sem Grettir hafði verið. Þetta var heilög stund hjá honum. Þetta var mjög skemmtilegt.“

Drangey dregur að fólk úr öllum þjóðfélagshópum, þar á meðal milljarðamæringa sem dvelja á lúxushótelinu Deplum og segja margir að ferðin út í Drangey standi upp úr. Feðgarnir hafa meðal annars sýnt leikaranum Ben Stiller eyjuna. Viggó segir einnig hafa verið skemmtilegt að taka á móti NBA-stjörnunni LeBron James í fyrra. Fleiri frægir voru með í för eins og skíðadrottningin Lindsay Vonn og grínleikkonan Rebel Wilson. Helgi Rafn sonur Viggós er nýkrýndur Íslandsmeistari með Tindastóli í körfuknattleik. „Þetta var mikil upplifun að fara með LeBron James. Sérstaklega fyrir Helga Rafn, þeir ræddu málin vítt og breitt um lífið og tilveruna. Við eigum heimboð í Bandaríkjunum,“ segir hann.

Ferðalangar á leið upp.
Ferðalangar á leið upp.

Viggó segist þó ekki gera upp á milli gesta sinna, hvort sem þeir eru frægir eða ekki. Allir geta upplifað eyjuna á sinn hátt. Viggó hefur útbúið stiga í skriðunni og kaðal til að halda í enda eyjan afar brött.

„Þetta er ekkert fyrir alla. Sumir eru lofthræddir og þá er það bara allt í lagi. Ég hef farið með allslags fólk í sjálfu sér. Ég hef farið þarna með einfættan mann, hann var fyrstur upp. Þetta er bara hvernig líkamlegt form fólks er. Ég held að Björn í Bæ hafi verið 91 árs þegar hann fór upp. Það er misjafnt hvernig fólk er. Ég fór einu sinni með blindan mann, hann fór ekki upp, hann var eftir hjá mér í bátnum og við veiddum fisk í soðið á meðan fólkið fór upp, það hafði hann aldrei gert, þannig að hann upplifði þetta á mjög sterkan hátt. Það er eftirminnilegt þegar hann snerti á fiskinum og heyrði hljóðið. Þetta er mjög sérstakt þegar maður kemur þarna inn í víkina og drepur á bátnum og heyrir fuglagargið,“ segir Viggó.

Kerlingin stendur enn.
Kerlingin stendur enn.

Drangey er perla

„Þú horfir á Drangey alla daga, hún er þarna á Skagafirðinum. Það eru milljón myndir teknar af Drangey í kvöldsólinni; þegar sólin er að fara á bak við eyjuna á sumrin og sólin sest aldrei, þá er hún þarna við sjóndeildarhringinn. Drangey hefur í gegnum aldirnar átt stóran sess í huga Skagfirðinga, það er enginn vafi. Ég tala nú ekki um þegar þú kemur upp á Vatnsskarðið og horfir yfir Skagafjörðinn, þá horfirðu út á sjóinn og horfir til Drangeyjar og þar er þessi perla, búin að vera alla þessa tíð. Þetta er merkasta kennileiti héraðsins.“

Viggó segir eyjuna og náttúru hennar einstaka. „Það er þessi fuglamergð og svo þessi bergmyndun, hvernig hún er, þarna er hægt að lesa til dæmis úr berginu Ópið eftir Munch. Ég hef nú sagt við ferðamenn að það sé greinilegt að Munch hafi komið til Drangeyjar; hann hefur séð þarna fyrirmyndina. Það gefur augaleið. Þá er merkilegt að sjá þennan drang, Kerlinguna í Drangey, standa þarna sunnan við eyjuna. Það lemur á henni norðanbrimið allt árið, í gegnum þessar árþúsundir sem hún hefur staðið þarna,“ segir Viggó en Drangey ber einmitt nafn af dröngunum tveimur, Karli og Kerlingu. Í þjóðsögu sem útskýrir upptök Drangeyjar voru Karl og Kerling tvö nátttröll og eyjan sjálf kýr. Kerlingin stendur ein eftir þar sem dranginn Karl hrundi í jarðskjálfta 1755.

Á Drangey mikið inni?

„Já, já. Drangey á mikið inni. Maður sá það í kórónuveirufaraldrinum að ég hef ekki farið með fleiri Íslendinga en það sumar. Ég held að Skagafjörðurinn eigi talsvert mikið inni,“ segir Viggó þegar talið berst að ferðaþjónustu í Skagafirðinum. „Við þurfum að halda því meira á loft sem í Skagafirði er – og Drangey er ekki að fara neitt,“ segir Viggó.

Viggó fór með LeBron James út í Drangey.
Viggó fór með LeBron James út í Drangey.
Viggó Jónsson og Helgi Rafn Viggósson.
Viggó Jónsson og Helgi Rafn Viggósson. mbl.is/Sigurður Bogi
Það er fjörugt fuglalíf í Drangey.
Það er fjörugt fuglalíf í Drangey. mbl.is/Sigurður Bogi
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert