Afhverju er Miley Cyrus alltaf nakin?

Miley Cyrus á VMA hátíðinni um síðustu helgi.
Miley Cyrus á VMA hátíðinni um síðustu helgi. AFP

Kristinn Stuð Styrkársson Proppé myndi gera hvað sem er fyrir frægðina.... nema kannski að koma nakinn fram. Slíka spéhræðslu er hinsvegar ekki að finna í heimi hinnar 22 ára poppdívu Miley Cyrus sem kynnti VMA verðlaun MTV sjónvarpsstöðvarinnar síðustu helgi í eins efnislitlum fötum og hún komst upp með og frelsaði jafnvel geirvörtuna í beinni.

 Á aðeins tveimur árum hefur Cyrus tekist að skilja heilsteypta Disney ímynd sína eftir í rykinu og verða ein umdeildasta poppstjarna heims. Það er auðvelt að afskrifa Cyrus sem athyglissjúkan ólátabelg, kannski sérstaklega í ljósi þess að hún sést æ sjaldnar fullklædd, en er kannski meira í hana spunnið? Er Miley Cyrus bara að gera „hvað sem er fyrir frægðina“ eða á viðvarandi nekt hennar sér aðrar skýringar og tilgang?

Er bert bak barnaklám?

Það er varla sá blettur á líkama Miley Cyrus sem almenningur hefur ekki barið augum. Myndbandið við lagið „Wreckingball“, þar sem Cyrus bætti einungis Dr. Martens skóm við Evuklæðin, sló tóninn og heimsbyggðin hefur setið hneyksluð eftir síðan.

Þetta var þó ekki í fyrsta skipti sem nakinn líkami Cyrus vakti hneykslan. Ljósmynd sem birtist af henni í tímaritinu Vanity Fair árið 2008 var úthrópuð sem barnaklám en myndin sýndi bert bak og handleggi Disney-stjörnunnar. Frægasti tískuljósmyndari heims, Annie Liebovitz, tók myndina og þrátt fyrir mikla gagnrýni stóð hún með verkinu.

Í greininni sem birtist með myndinni var Cyrus , þá 15 ára, spurð hvort henni hefði fundist myndatakan óþægileg og svaraði hún því neitandi. „Ég var með stórt teppi yfir mér. Og mér fannst þetta fallegt og mjög náttúrulegt.“ Cyrus dró þá staðhæfingu hinsvegar til baka í yfirlýsingu eftir útgáfu tímaritsins. „Mér finnst þetta svo vandræðalegt. Ekkert af þessu var ætlun mín og ég bið aðdáendur mína sem skipta mig svo miklu máli afsökunnar.“

Liebovitz komst mjög líklega mun nær því að fanga hina raunverulegu Miley Cyrus, án uppdúllaðs Disney-gervis hinnar síhressu Hannah Montana, en nokkur ljósmyndari hafði áður gert og hvort myndin er yfirhöfuð kynferðisleg er í raun umdeilanlegt.

Það er vissulega rétt að 15 ára drengur væri seint látinn stilla sér upp með svipuðum hætti en hefðu hneykslisraddirnar verið jafn háværar ef hinn 15 ára Justin Bieber hefði sýnt bakið í svipaðri stellingu? Eru öll ber bök kynferðisleg eða bara bök kvenna?
Miley ræddi myndatökuna aftur árið 2011, þá við Harper‘s Bazaar og sagði að fólk sæi það sem það vildi sjá í myndinni: eitthvað neikvætt sem selur blöð. „Foreldrum mínum finnst þeir vera að horfa á fallega ljósmynd eftir merkan ljósmyndara og almenningur í Bandaríkjunum vill sjá eitthvað dónalegt við það?“

Í viðtali við Elle í apríl 2014 tók Cyrus enn harðari afstöðu gegn því kynferðislega sjónarhorni sem almenningur sveipaði hana.

„Mér fannst ég ekki vera kynferðisleg en hugur viðkomandi fór þangað – hver er sá pervetíski? Ég skammaðist mín klárlega ekki fyrir það en einhver þurfti að skrifa eitthvað sem sagði að ég gerði það. Ég vil ekki gera svoleiðis lengur.“

 Kynferði á eigin forsendum

Kannski er það einmitt vegna fyrrnefndar myndar sem Cyrus gerir í því að rífa í sundur ramma hins vestræna heims hvað nekt, kynlíf og kvenlíkamann varðar, svo mörgum þykir nóg um.

Myndband hennar við „Wreckingball“ sló áhorfsmet One Direction á YouTube rás myndbandaveitunnar Vevo, fékk 19,3 milljónir áhorfa á einum sólarhring og náði 100 milljónum áhorfa á aðeins sex dögum.

Í þetta skipti var Cyrus svo sannarlega kynferðisleg og jafnvel meira svo íklædd hvítu ullarnærfötunum, sleikjandi stóra sleggju af innlifun en sveiflandi sér nakin á niðurrifskúlunni.  

Myndbandinu var ætlað að ögra, ætlað að vera kynferðislegt, en á hennar forsendum. Eins og Tavi Gevinson skrifaði í viðtali sínu við Cyrus í Elle varð barnastjarnan hvorki að kynbombu né kisulóru með aldrinum heldur að grashaus með drengjakoll og strákslegan vöxt sem hún er stolt af.

„Hún fylgdi ekki í fótspor ungra kvenstirna sem bregða sér í kynþokkafull hlutverk fyrir áhorfendur en eiga sér síðan ekkert kynlíf sjálfar (eða játa það í það minnsta ekki á sig); þess í stað er það kynlíf sem hún setur á svið kjánalegt og óaðgengilegt, aðeins ætlað að veita henni sjálfri ánægju og skemmtun.“

Í viðtalinu segist Cyrus sjálf ekki reyna að vera kynþokkafull en að hún reyni að sýna stelpum að þær þurfi ekki ljóst sítt hár og stór brjóst. Þær tilraunir séu vissulega kynferðislegar, en á annan hátt.

„Mörg konan tók losta fyrir ást“

Margir efast um að Cyrus sé raunverulega að fylgja eigin sannfæringu og saka hana um andfemíníska hegðun og að láta bransann spila með sig. Þeirra á meðal er Sinéad O‘Connor sem skrifaði Cyrus opið bréf „í móðurlegum anda og með ást“ þar sem hún sagði Cyrus skyggja á eigin hæfileika með því að selja sig eins og vændiskonu, hvort sem það væri hún sjálf eða iðnaðurinn sem stæði að baki sölunni.

„Öllum mönnunum sem glápa á þig er líka skítsama um þig. Ekki láta blekkjast. Mörg konan tók losta fyrir ást. Ef þeir vilja þig kynferðislega þýðir það ekki að þeim standi ekki á sama um þig. Það er enn meira satt þegar þú sendir óviljandi þau skilaboð að þér standi líka á sama um sjálfa þig.“

O‘Connos sagði heiminn hættulegan og að mannfólkið hvetji ekki dætur sínar til að ganga um naktar í honum þar sem þá verði þær að bráð rándýra á við þau sem vinna í tónlistariðnaðinum. Sagði hún Cyrus vera meira virði en bara líkami hennar og kynþokki og að líkaminn tilheyrði aðeins henni og kærasta hennar.

Þessa orðræðu kannast margar ungar íslenskar konur við enda voru áþekk „móðurleg“ eða „föðurleg“ og velmeinandi ráð fljót að spretta upp þegar Íslendingar frelsuðu geirvörturnar í hrönnum fyrr á árinu. Þó svo að Cyrus lifi og hrærist í ólíkum raunveruleika en íslenskar konur eru skilaboð hennar til umheimsins þau sömu og þær sendu. Skilaboð sem eru í grunnin þau sömu og O‘Connor vill senda en tjáð með öðrum hætti.

 „It‘s my mouth I can say what I want to“

 Eins og Cyrus syngur í laginu „We can‘t stop“ segir hún það sem hún vill því hún á munninn sinn sjálf og það sama gildir um líkama hennar.  

Með frelsun geirvörtunnar tóku íslenskar konur valdið yfir eigin líkömum frá kynferðislegu sjónarhorni samfélagsins og frá þeim sem dreifa hefndarklámi. Valdtakan hefði seint getað orðið að veruleika ef ekki nyti við fyrirmynda ungra, frægra kvenna á við Rihönnu, Jennifer Lawrence og Miley Cyrus sem berjast gegn því kynferðislega sjónarhorni sem heimurinn sveipar líkama þeirra. Þess má einnig geta að Cyrus var sjálf fórnarlamb hefndarkláms stuttu eftir Vanity Fair myndatökuna 2008 þegar myndir af henni sem aðeins voru ætlaðar Joe Jonas birtust á veraldarvefnum. 

Það að Cyrus taki valdið yfir eigin líkama þýðir hinsvegar ekki að hún sé ekki kynferðisleg. Hún gerir í því að ögra viðteknum hugmyndum um kyn og kynferði, hafandi skilgreint sig sem „kynfljótandi“ (e. gender fluid). Kynferðislega tilburði sína í hinu almenna rými segir hún hinsvegar vera algjörlega (eins og áður segir) á eigin forsendum enda vill hún vera leiðandi á sama hátt og tónlistarmennirnir sem leiddu byltingu 68 kynslóðarinnar. 

„Ég verð bara að sjá til þess að ég sé rödd minnar kynslóðar,“ segir Cyrus í fyrrnefndu Elle viðtali. „Ég held að ég hjálpi stelpum að vera afar frjálsar með kynvitund sína.“

Geirvörtuþolið hækkar

Frá því að „Wreckingball“ kom út hefur Cyrus margoft komið nakin eða hálfnakin fram og svo virðist sem almenningur sé að einhverju leiti farinn að venjast því.

Fjörlegar nektarmyndir sem birtust af henni í Papermag fyrr á árinu vöktu mun minni hneykslan en „Wreckingball“ á sínum tíma þrátt fyrir að hún flaggaði þar geirvörtunum (sem Facebook óttast svo mjög) og átti í rauninni lítið annað eftir að sýna lesendum en sjónarhorn kvensjúkdómalæknisins.

Geirvörtur og klof Cyrus voru líka nánast það eina sem búningar hennar huldu þegar hún kynnti VMA verðlaun MTV sjónvarpstöðvarinnar í beinni á sunnudaginn var. Svo virðist sem Cyrus hafi reyndar ekki getað setið á sér þegar til kastanna kom þar sem önnur geirvartan fékk „óvart“ að finna fyrir frelsinu undir lok útsendingarinnar.

Miley Cyrus

Þó svo að geirvartan hafi vakið athygli fjölmiðla og líklega leitt af sér nokkrar kvartanir til Samskiptanefndar Bandaríkjanna (FCC) voru þær ekkert á við þær kvartanir sem bárust árið 2004 þegar Justin Timberlake afhjúpaði brjóst Janet Jackson í beinni í hálfleik Ofurskálarinnar. Þær voru 1,4 milljón talsins og leiddu af sér sekt fyrir CBS upp á 550 þúsund Bandaríkjadali. Eins og Yahoo News orðar það varð bert brjóst Jackson að þjóðarhneyksli á meðan að flass Cyrus fékk þjóðina varla til að gera annað en yppa öxlum. Núna, aðeins viku síðar, er geirvartan allt að því gleymd.

Eitt ætlunarverk Cyrus og systra hennar af sömu kynslóð, normalisering geirvörtunnar, virðist þannig komin vel á veg miðað við þann raunveruleika sem blasti við fyrir áratug. Líklega er nokkuð í að nakinn líkami Cyrus hætti að hneyksla með öllu en hún treystir líka á að svo verði.

„Ég geri alla þessa hluti til að fá athygli. En hvað geri ég svo þegar ég hef fengið hana?“ sagði hún í viðtali við Out. Í augnablikinu tekur hún athyglina og beinir henni að málefnum ungra heimilislausra LGBTQ einstaklinga í gegnum góðgerðarfélag sitt The Happie Hippie Foundation. Og hún notar meira en bara líkama sinn til að vekja athygli á málstaðnum því hún hefur m.a. skellt öðrum stjörnum í peysur merktar félaginu með afar tæpri Photoshop kunnáttu sinni.

„Ætlar Kanye fokking West að finna mig í fjöru? Ég nota allt þetta fólk sem fyrirsætur en það getur ekki öskrað á mig – þetta er fyrir félagið mitt! Ég er skammlaus þegar kemur að félaginu mínu.

Ég myndi gera hvað sem er.“

Myndin sem birtist af Cyrus í Vanity Fair.
Myndin sem birtist af Cyrus í Vanity Fair.
Kynferðislegir tilburðir Cyrus á VMA hátíðinni 2013 vöktu mun meira …
Kynferðislegir tilburðir Cyrus á VMA hátíðinni 2013 vöktu mun meira umtal en framkoma hennar í ár. AFP
Úr myndbandi Cyrus við lagið Wreckingball.
Úr myndbandi Cyrus við lagið Wreckingball. Skjáskot af YouTube
Forsíða Papermag þar sem Cyrus beraði allt á fjörlegum ljósmyndum.
Forsíða Papermag þar sem Cyrus beraði allt á fjörlegum ljósmyndum.
Sinead O'Connor er ekki hrifin af uppátækjum Cyrus.
Sinead O'Connor er ekki hrifin af uppátækjum Cyrus. AFP
Einn af búningum Cyrus á VMA hátíðinni.
Einn af búningum Cyrus á VMA hátíðinni. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þótt öllum líki ekki málflutningur þinn þýðir það ekki að þú eigir að þegja. Njóttu þess að vera með fjölskyldunni í kvöld.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Lone Theils
4
Anna Sundbeck Klav
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þótt öllum líki ekki málflutningur þinn þýðir það ekki að þú eigir að þegja. Njóttu þess að vera með fjölskyldunni í kvöld.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Lone Theils
4
Anna Sundbeck Klav
Loka