„Ekki ætlun páfa að kafa djúpt ofan í hugmyndina um heilagt stríð"

Páfagarður hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem fram kemur að Benedikt XVI páfi hafi alls ekki ætlað að móðga múslíma með tilvísun sinni í ummæli frá fimmtándu öld þar sem staðhæft var að Múhameð spámaður hefði einungis fært heiminum illsku og ómannúð. Segir í yfirlýsingunni að páfi hafi einungis viljað lýsa andstöðu sinni við ofbeldi byggt á hvers kyns trúarlegum grunni. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.

„Það var vissulega ekki ætlun páfa að kafa djúpt ofan í hugmyndina um heilagt stríð og viðhorf múslíma til þess, hvað þá að særa tilfinningar trúaðra múslíma,” segir í yfirlýsingu Federico Lombardi, aðaltalsmanns Páfagarðs. „Það er ljóst að vilji hins heilaga föður stendur til þess að ýta undir virðingu og samræðu á milli trúarbragða og menningarheima og það á augljóslega við um íslam.”

Sendiherra Páfagarðs í Pakistan var kallaður á fund þarlendra stjórnvalda í dag vegna ummælanna og ráðherra trúmála í Tyrklandi fór fram á opinbera afsökunarbeiðni vegna þeirra en til stendur að páfi heimsæki Tyrkland í nóvember. Þá hafa samtök múslíma víða um heim mótmælt ummælunum í dag og þau verið fordæmd við föstudagsbænir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert