Öryggisviðbúnaður við kirkjur í Betlehem og Jenin

Mikill öryggisviðbúnaður er nú við fæðingarkirkjuna í Betlehem.
Mikill öryggisviðbúnaður er nú við fæðingarkirkjuna í Betlehem. AP

Ismail Haniya, forsætisráðherra heimastjórnar Hamas-samtakanna á palestínsku sjálfstjórnarsvæðunum, fordæmdi í dag árásir á kirkjur á svæðunum í kjölfar orða Benedikts páfa um íslam og Múhameð spámann. Sagði hann árásirar algerlega óásættanlegar. “Allir palestínskir borgarar verða að hætta árásum á kristnar kirkjur á palestínsku sjálfstjórnarsvæðunum. Kristnir bræður okkar eru hluti af palestínsku þjóðinni og ég hef heyrt æðsta yfirvald kristinna manna í Palestínu fordæma yfirlýsingarnar gegn íslam og múslímum,” sagði hann.

Mikill öryggisviðbúnaður er við fæðingarkirkjuna í Betlehem vegna málsins. “Við höfum griðpið til öryggisráðstafana til að verja kirkjur í Betlehem og þá sérstaklega Fæðingarkirkjuna, gegn hvers konar árásum í kjölfar ummæla páfa,” segir Ahmad Al-Haddar, yfirmaður palestínsku lögreglunnar í bænum. Þá hafa liðsmenn Jihad samtakanna staðið vörð um kaþólsku kirkjuna í borginnni Jenin á Vesturbakkanum í dag. “Tíu okkar standa samtímis vörð kirkjuna,” sagði einn þeirra í samtali við AFP-fréttastofuna. “Við höfum fyrirmæli um það frá leiðtogum okkar og munum beita valdi til að verja hana ef þörf krefur því kirkjan er helgur staður.”

Bensínsprengjum var varpað á kirkju í Tubas á Vesturbakkanum í morgun en smásprengjum var einnig varpað á kirkjur þar í gær og fyrradag. Þá brutust óþekktir tilræðismenn inn í kirkju í bænum Tulkarem í nótt og kveiktu þar í dekkjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka