Óttast að brugðist verði með ofbeldi við orðum páfa um islam

Leiðtogar og stjórnmálaskýrendur í Mið-austurlöndum kváðust í dag óttast að brugðist yrði með ofbeldi við orðum Benedikts páfa um íslamska trú og ódæðisverk. Páfi ræddi um íslam og heilagt stríð (jihad) er hann heimsótti Þýskalandi á þriðjudaginn, og hafa orð hans vakið hörð viðbrögð í Mið-Austurlöndum og víðar um hinn íslamska heim.

Antoine Basbous, sérfræðingur í málefnum Mið-Austurlanda, sagði að hætta væri á að gripið yrði til ofbeldis þegar fregnir af orðum páfa bærust víðar. „Ýmsir arabískir fjölmiðlar munu fara að fjalla um þetta málefni, og þá er óhjákvæmilegt að einhverjir bregðist við,“ sagði Basbous.

Hann sagðist óttast að reiðileg viðbrögð við orðum páfa kynnu að hafa keðjuverkandi áhrif og leiða til svipaðra mótmælaaðgerða um allan heim og fylgdu í kjölfar birtingar Jyllandsposten á skopmyndum af Múhameð.

Abdel Moneim Abul Futuh, háttsettur leiðtogi í Bræðralagi múslíma, stærsta stjórnarandstöðuflokknum í Egyptalandi, sagðist búast við „hörðum viðbrögðum við orðum páfa, sem eru skaðlegri fyrir íslam en skopmyndirnar því að þau mælir leiðtogi margra milljóna manna, en ekki aðeins einn blaðamaður.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert