Bretar handteknir fyrir að bjóða umskurð

Limlesting á kynfærum kvenna með umskurði var bönnuð með lögum …
Limlesting á kynfærum kvenna með umskurði var bönnuð með lögum í Bretlandi árið 2003. Reuters

Tveir karlmenn voru handteknir á Bretlandi í dag í kjölfar fjölmiðlaumfjöllunar um að þeir hafi boðist til að framkvæma limlestingu á kynfærum kvenna með umskurði. Mennirnir tveir eru 55 og 61 árs gamlir og er annar þeirra læknir en hinn tannlæknir. 

Handtökurnar voru gerðar í framhaldi af umfjöllun breska blaðsins Sunday Times þann 22. apríl, að sögn lögreglu. „Við erum enn á frumstigum rannsóknarinnar en ég vona að aðgerðir okkar í morgun sendi skýr skilaboð um hversu alvarlega við tökum þessar ásakanir," sagði rannsóknarlögreglumaðurinn Caroline Marsh í samtali við AFP.

24.000 breskar stúlkur í hættu

Sunday Times sagði frá því að læknir á einkarekinni heilsugæslu hafi gefið blaðamanni sem leitaði eftir því ráðleggingar um að leita til tannlæknis sem hann þekkti, sem væri tilbúin til að framkvæma umskurð á stúlkubörnum. „Limlesting á kynfærum er alvarleg árás gegn ungum stúlkum og jafnvel þótt sumir foreldrar telji að ekki sé um hatursglæp að ræða þá er þetta engu að síður ill meðferð á börnum og ólöglegt," sagði Marsh. 

Umskurður á kynfærum kvenna var bannaður með lögum í Bretlandi árið 2003. Breska innanríkisráðuneytið áætlar að um 24.000 stúlkur undir 15 ára aldri eigi í hættu að kynfæri þeirra verði limlest og hefur tilfellum fjölgað í takt við fjölgun innflytjenda frá Mið-Austurlöndum og Afríku þaðan sem siðurinn er upprunninn. Fáar sakfellingar hafa hinsvegar orðið í Bretlandi eftir að lögin voru samþykkt. 

Ævilangar þjáningar

Á bilinu 100 til 140 milljón stúlkur og konur um allan heim eru taldar hafa orðið fyrir limlestingu á kynfærum, sem framkvæmd er þannig að hluti kynfæranna er skorinn burt, stundum bara snípurinn en stundum stórir hlutar innri og ytri skapabarma einnig. Þessi limlesting getur leitt til sýkinga og ævilangra þjáningar fyrir utan að svipta konurnar möguleikann á því að njóta kynlífs. 

Sá siður að skera burt kynfæri kvenna hefur verið iðkaður í þúsundir ára.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert