Hvað bíður breska prinsins?

Katrín og Vilhjálmur ljómuðu þegar þau yfirgáfu sjúkrahúsið með nýfæddan …
Katrín og Vilhjálmur ljómuðu þegar þau yfirgáfu sjúkrahúsið með nýfæddan son sinn í gær. AFP

Nýfætt barn er óskrifað blað, en að því gefnu að ekki verði bylting í Bretlandi er framtíð hins unga prins af Cambridge kortlagðari en flestra hvítvoðunga. Örlög hans eru óumflýjanleg: Að erfa eitt elsta konungdæmi heims. Honum verður hlíft við mörgum þeim vandamálum sem við flest glímum við, en hans bíða aðrar áskoranir.

Viðburður sem þessi verður ekki nema á 30  ára fresti eða svo, það er að segja að barn í beinni erfðaröð bresku krúnunnar fæðist. Síðast gerðist það þegar Vilhjálmur fæddist 1982 og þar áður við fæðingu Karls 1948.

Nicholas Witchell, konunglegur fréttaritari breska ríkisútvarpsins BBC veltir fyrir sér hvaða líf bíður þriðja prinsins í erfðaröðinni og hvað hefur breyst frá því faðir hans og afi fæddust inn í konungsfjölskylduna.

Á toppi samfélagsins án þess að afreka neitt

Witchell bendir á að alveg óháð vitsmunum og greind, „sem verður að viðurkennast að ekki öll þeirra hafa notið,“ þá geti það haft lamandi áhrif á hvaða kóngafólk sem er að fá slík og þvílík lífsgæði sjálfkrafa upp í hendurnar.

„Þeim er úthlutað stöðu á toppi samfélagins og eru umkringd afreksfólki af öllu tagi án þess að hafa nokkurn tíma þurft að sanna sjálf að þau séu verðug slíkrar upphefðar. Það er líklega þessi hluti erfðakerfisins sem lýðveldissinnar og raunverulegt hæfileikafólk hefur hvað mesta óbeit á.“

Witchell segir að breska konungsfjölskyldan geri sér fulla grein fyrir þessu og m.a. þess vegna hafi prinsunum ungu, Vilhjálmi og Harry, verið gefin tækifæri til að prófa sig áfram og finna sjálfir á hvaða sviðum hæfileikar þeirra liggja. 

„Prinsarnir hafa fundið sína hillu í herþjónustu. Vilhjálmur sem leitar- og björgunarflugmaður og Harry með hermennsku í Afganistan. Þegar fram líða stundir verður að beita sömu meðulum á nýjasta meðlim konungsfjölskyldunnar.“

Óneitanlega sérstakur en ekki öðrum fremri

Witchell segir flesta geta verið sammála um sérstöðu prinsins af Cambridge, einfaldlega vegna þess inn í hvaða aðstæður hann fæðist. „En í þeirri heimsmynd sem hann elst upp þá væru það mikil mistök að telja að sérstaða hans þýði sjálfkrafa að hann sé öðrum fremri.“

Þegar ríkiserfinginn vex og dafnar mun hann þurfa að reyna, líkt og faðir hans, afi og langamma, að öðlast virðingu almennings á eigin verðleikum, að mati Witchell.

Sjálfur telur hann að prinsinum unga færi best á því að taka langömmu sína, Elísabetu II, til fyrirmyndar því henni hafi sem drottningu tekist að nálgast hlutverk þjóðhöfðingjans bæði af virðingu og ákveðnu æðruleysi.

Þarf að venjast ágangi fjölmiðla

„Allt er þetta framtíðarmúsík, en engu að síður er líklegt að barnið muni á unga aldri þurfa að takast á við þá áskorun sem fylgir því að vera alla ævi undir smásjá almennings,“ segir Witchell og bætir við að Vilhjálmur þekki það sjálfur frá eigin barnæsku hversu ágengir fjölmiðlar geti verið.

„Það verður algjört forgangsatriði fyrir Vilhjálm að reyna að tryggja að sonur hans njóti barnæskunnar svo frjáls sem framast er unnt af alþjóðlegum fjölmiðlum, sem líta á kóngafólkið unga í Bretlandi með peningaglýju í augum enda ljóst hve mikið aðdráttarafl þau hafa fyrir lesendur.“

Katrín hertogaynja hefur sjálf fengið sinn skerf af óumbeðinni fjölmiðlaathygli og mun að sögn Witchells vera jafn ákveðin og Vilhjálmur í því að búa syni sínum eins eðlilegt umhverfi og hægt er. Middleton-fjölskyldan muni verða henni innan handar við það enda hafi þau til þessa sýnt að þeim sé treystandi fyrir návígi við konungsfjölskylduna án þess að daðra við fjölmiðla í kjölfarið. Helsti óvissuþátturinn sé að vísu yngri systir hennar, Pippa.

Fyrstur prinsa umkringdur millistéttarfólki

Mikið hefur verið um það rætt í Bretlandi að prinsinn ungi verður fyrsta barnið í beinni erfðaröð bresku krúnunnar sem elst upp umkringt miðstéttarfólki. Katrín móðir hans muni kannski innræta honum önnur gildi.

„Verði það tilfellið getur enginn haldið því fram að drengurinn konungborni, sem nýtur forréttindastöðu frá fæðingu, muni ekki njóta góðs af góðum skammti af jarðbundnum sjálfsaga í anda Middleton-fjölskyldunnar,“ segir Witchells.

Þá bendir hann á að prinsinn eigi aðeins eina ömmu, móður Katrínar, sem án efa verði áhrifavaldur í lífi hans. „Við megum því búast við því að prinsinn af Cambridge njóti öruggs og ástríks atlætis sem mun hjálpa honum að skilja til hvers er ætlast af honum.“

Ekki er ólíklegt að prinsinn muni eignast lítið systkini en Witchell segir líklegt að Vilhjálmur og Katrín eignist ekki fleiri en tvö börn þar sem konungsfjölskyldan virðist gera sér grein fyrir því hve flókið og kostnaðarsamt það sé að „framleiða“ of mikið af kóngafólki.

Kóngur eftir hálfa öld

En hvað mun þá framtíð litla prinsins bera í skauti sér?

„Í stuttu máli: ævilanga forvitni almennings og þegar fram líða stundir það hlutverk að viðhalda og endurnýja þá ævafornu stofnun sem þekktasta konungsríki heims er,“ segir Witchell.

Eftir u.þ.b. 50 ár má búast við því að barnið sem heimurinn leit fyrsta sinn augum í gær verði dregið upp að Westminster Abbey í gylltum hestvagni þar sem það verður krýnt konungur líkt og forfeður hans og mæður í erfðaröð sem rekja má aftur um þúsund ár.

Bræðurnir Vilhjálmur og Harry með móður sinni Díönu.
Bræðurnir Vilhjálmur og Harry með móður sinni Díönu.
Langamma drengsins, Elísabet II, er að vonum alsæl með erfingjann.
Langamma drengsins, Elísabet II, er að vonum alsæl með erfingjann. AFP
Rúm 30 ár eru liðin síðan síðast fæddist barn í …
Rúm 30 ár eru liðin síðan síðast fæddist barn í beinni erfðaröð bresku krúnunnar. Það var Vilhjálmur.
Vilhjálmur og Harry hafa báðir fundið sína hillu innan herþjónustunnar …
Vilhjálmur og Harry hafa báðir fundið sína hillu innan herþjónustunnar og unnið sér inn virðingarsess þar. AFP
Karl og Díana með prinsana Vilhjálm og Harry unga að …
Karl og Díana með prinsana Vilhjálm og Harry unga að árum.
Prinsinn ungi aðeins um sólarhrings gamall í örmum móður sinnar.
Prinsinn ungi aðeins um sólarhrings gamall í örmum móður sinnar. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert