Undirbjuggu árásina í fjóra mánuði

Fórnarlamba hryðjuverkanna minnst í Naíróbí.
Fórnarlamba hryðjuverkanna minnst í Naíróbí. AFP

Allir fjórir mennirnir sem tóku þátt í árásinni á Westgate-verslunarmiðstöðina í Naíróbí í Kenía fengu þjálfun í Sómalíu. Þeir komu til Kenía fjórum mánuðum áður en árásin var gerð. Þeir létust allir í árásinni.

Mennirnir eru taldir hafa komið saman til Kenía í júní. Þeir héldu til í Eastleigh-hverfi í Naíróbi þar sem margir Sómalar búa. Hverfið er oftast kallað Litla-Mógadisjú.

Þeir stunduðu líkamsrækt í vinsælum íþróttasal í hverfinu á sama tíma og þeir skipulögðu árásina. Þeir létu svo til skarar skríða 21. september. Þeir ruddust inn í verslunarmiðstöðina, skutu á gesti og köstuðu handsprengjum. Herinn sat um bygginguna í fjóra daga og að lokum lágu allir árásarmennirnir í valnum.

„Við erum sannfærðir um að það hafi eins verið fjórir árásarmenn,“ segir heimildarmaður AFP-fréttastofunnar innan lögreglunnar. 

67 týndu lífi í árásinni.

Sómalíski hryðjuverkahópurinn Shebab hefur lýst yfir ábyrgð á árásinni. Þeir kröfðust þess að hermenn frá Kenía yrðu kallaðir heim frá Sómalíu þar sem þeir hafa m.a. barist gegn hryðjuverkahópnum frá árinu 2011.

Rauði krossinn segir að enn sé um 20 manna saknað eftir árásina. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert