Sá árásarmennina æða um húsið

Byssumaður í Westgate-verslunarmiðstöðinni.
Byssumaður í Westgate-verslunarmiðstöðinni. AFP

Réttarhöld yfir fjórum mönnum sem eru ákærðir í tengslum við árásina á Westgate-verslunarmiðstöðina í september á síðasta ári hófust í morgun. Hófust þau á því að dómarar hlýddu á vitnisburð öryggisvarðar sem var fyrir utan verslunarhúsnæðið þegar byssumenn hófu árásina, en talið er að 67 hafi látið lífið í árásinni.

Mennirnir fjórir, Adan Mohamed Abidkadir Adan, Mohamed Ahmed Abdi, Liban Abdullah Omar and Hussein Hassan Mustafah segist allir vera saklausir, að þeir hafi ekki aðstoðað sómölsku hryðjuverkasamtökin Shebab. Hópurinn hefur áður lýst yfir ábyrgð á árásinni.  

Vitni sem stödd voru í verslunarmiðstöðinni lýstu því hvernig árásarmennirnir æddu í gegnum Westgate-verslunarmiðstöðina. Mennirnir skutu úr byssum sínum og köstuðu handsprengjum að viðskiptavinum og starfsfólki. Vitnið Stephen Juma lvar fyrir utan verslunarmiðstöðina þegar bíl var ekið upp að henni og komu þrír menn út úr bílnum. Í kjölfarið heyrði hann byssuskot og reyndi að komast í öruggt skjól.

Talið er að byssumennirnir hafi verið fjórir, ekki mun fleiri eins og fyrst var talið, hafi allir látið lífið í árásinni. Interpool og FBI hafa aðstoðað yfirvöld í Kenía við að bera kennsl á lík mannanna.

Annar öryggisvörður, Patrick Otwane, kom einnig fyrir dóminn í dag. Hann sagðist hafa séð tvo menn með svört sólgleraugu, höfuðklúta, í brúnum bolum og í jökkum skjóta í anddyri verslunarmiðstöðvarinnar. Í gögnum sem lögð voru fyrir dóminn kemur fram að nöfn tveggja árásarmannanna hafi verið Mohammed Abdinur Said og Hassan Abdi Dhuhulow. Sá síðarnefndi var 23 ára Sómali sem dvaldi um hríð í Noregi.

Réttarhöldin halda áfram á morgun, fimmtudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert