Stúlkurnar komu limlestar til Svíþjóðar

Amran Mahamood er sómölsk og hefur í 15 ár haft …
Amran Mahamood er sómölsk og hefur í 15 ár haft atvinnu af því að umskera ungar stúlkur. Siðurinn er á undanhaldi í Sómalíu, en á vissum svæðum í sveitum landsins eru þó enn allt að 98% stúlkna limlestar. AFP

60 sómalskar stúlkur í Svíþjóð, sem læknisskoðun leiddi í ljós að höfðu verið umskornar, voru allar limlestar með þeim hætti áður en þær komu í fyrsta sinn til Svíþjóðar sem innflytjendur. Engu að síður hefur málið vakið  umtal í Svíþjóð um hvort meira sé hægt að gera til að hjálpa stúlkum í svipaðri stöðu.

Fyrstu fréttir af málinu voru nokkuð óljósar og mátti af þeim skilja að læknisskoðun hefði fyrir tilviljun leitt í ljós að 28 af 30 stúlkum í einum bekk í Nörrkoping hefðu  mátt þola limlestingu á kynfærum. Drógu margir þá ályktun að aðgerðirnar hefðu verið framdar í Svíþjóð, eða farið hefði verið sérstaklega með stúlkurnar frá Svíþjóð til Sómalíu í því skyni.

Raunin er sú að stúlkurnar eru allar nýkomnar til Svíþjóðar og voru skoðaðar af sérfræðingi í afleiðingum kynfæralimlestinga. Hátt hlutfall innflytjenda er í Norrköping og því ákváðu sveitastjórnaryfirvöld þar síðasta haust að hefja kerfisbundnar rannsóknir á og forvarnir gegn limlestingum á kynfærum kvenna. 

Héldu að kvalirnar fylgdu því að vera stelpa

Anissa Mohammed Hassan er sérstakur ráðgjafi sveitastjórnar Norrköping í málefninu og hefur ferðast víða um Svíþjóð síðustu mánuði til að fræða bæði skóla- og heilbrigðisyfirvöld, lögreglu o.fl. sem málið varðar um hvernig hægt sé að bera kennsl á einkenni og bregðast við málum stúlkna sem hafa verið limlestar.

„Stúlkur sem ég hitti skilja margar hverjar ekki að einkennin sem þær hafa eru vegna þess að kynfærin á þeim hafa verið limlest. Þær halda að svona sé það bara að vera stelpa,“ segir Anissa í viðtali við sænska dagblaðið Norrköpings Tidningar (NT) sem hefur leitt umfjöllun um málið.

Anissa er sjálf af sómölskum uppruna og þekkir af eigin raun afleiðingar kynfæralimlestingar. Fram kemur á vef NT að þaðan sem hún kemur í Sómalíu séu 98% stúlkna limlestar, flestar með eins alvarlegum hætti og hugsast getur þannig að bæði ytri og innri skapabarmar eru skornir burt auk snípsins.

Síðan verkefnið hófst í haust hefur Anissa hitt fjölda stúlkna, þar á meðal hópinn sem áður var talið að hefðu allar verið saman í bekk. Hið rétta er að þær voru boðaðar til fundar til þess að Anissa gæti rætt við þær. „Markmiðið var að upplýsa þær um hvaða hjálp væri til staðar. Ég spurði hversu margar þeirra hefðu verið umskornar, og allar lyftu upp hönd. Margar upplifðu miklar kvalir, en vissu ekki að vandamál þeirra á kynfærasvæðinu væru orsökuð af limlestingu. Þær héldu bara að þetta fylgdi því að vera stelpa.“

Hægt að taka stúlkurnar af foreldrunum

Rétt eins og Anissu sjálfri á sínum tíma hafði stúlkunum verið sagt að allur sársaukinn og heilsufarsvandamálin, eins og að geta varla pissað, myndu hverfa þegar þær gengju í hjónaband. „Það verður að upplýsa þær um að þær þurfa ekki að þjást svona lengi, að þær geta fengið hjálp innan sænska heilbrigðiskerfisins,“ segir Anissa í samtali við NT. „Þær verða líka að vita að skólahjúkrunarfræðingar- og læknar eru bundnir þagnarskyldu svo þær geta leitað sér hjálpar án þess að foreldrum þeirra eða ættingjum sé tilkynnt um það.“

Fram kemur í NT að stúlkur sem hafa verið saumaðar saman eftir limlestingu geta gengist undir skurðaðgerð til að fá leggöngin opnuð á nýjan leik. Séu þær undir lögaldri þarf hinsvegar að gera það í samráði við foreldra. „Þá er mikilvægt að læknirinn útskýri að stúlkur eiga ekki að þurfa að lifa við þetta ástand í Svíþjóð, því það er hættulegt. Það er óásættanlegt að stúlkur séu samansaumaðar og látnar þjást,“ segir Anissa.

Setji foreldrarnir sig upp á móti því slíkri leiðréttingaraðgerð er hægt að tilkynna þá til sænskra félagsmálayfirvalda sem skera þá úr um hvort taka þurfi barnið af foreldrunum svo það fái meðferð við hæfi.

Refsilögsagan nær út fyrir landsteinana

Sænsk lög eru með þeim ströngustu sem um getur gagnvart limlestingum á kynfærum kvenna. Svíar hafa farið þá leið, líkt og Danir, Norðmenn, Frakkar og Englendingar, að víkja frá meginreglunni um tvöfalt refsinæmi þannig að refsilögsagan nái einnig yfir verknaðinn þó hann sé framinn í öðru landi, í þeim tilfellum þar sem foreldrar eða forráðamenn fara með börnin úr landi undir þessu yfirskini.

Í Svíþjóð er í ofanálag unnt að saksækja fyrir limlestingu sem framin er áður en stúlkan kemur í fyrsta sinn til Svíþjóðar, ef viðkomandi fjölskylda hafði einhver tengsl við Svíþjóð þegar það var gert.

Lögin ein og sér eru hinsvegar ekki nóg, ef marka má umfjöllun NT, heldur þarf einnig að fylgja fræðsla. Noregur hefur að þessu leyti náð lengra en Svíþjóð í baráttunni gegn kynfæralimlestingu, að sögn Norðmannsins Ragnhild Elise Johansen, sem rannsakar málaflokkinn þar í landi.

Helsti munurinn er að hennar sögn sá að í Noregi er kerfisbundið eftirlit samræmt á landsvísu, fjármagnað af hinu opinbera, til að ná til stúlkna í áhættuhópi. Að því koma ýmsar stofnanir og félagasamtök auk skólayfirvalda og aðrir sem vinna með ungu fólki. Á 1-2 ára fresti fundi allir þessir aðilar og stilli saman strengi. 

Allar stúlkur sem taldar eru í áhættuhópi gangast undir læknisskoðun þegar þær koma til Noregs sem hælisleitendur og eru auk þess, að sögn Ragnhild, boðaðar í heilsufarseftirlit a.m.k. þrisvar sinnum á grunnskólaferlinum. Þá verðandi mæður úr þessum hópi sérstaka fræðslu í mæðraeftirlitinu í Noregi.

Ragnhild segir þó að enn megi gera betur í Noregi. Þar sé mikil áhersla lögð á að upplýsa nýja ríkisborgara um lögin gegn kynfæralimlestingu, en ganga þurfi úr skugga um að fólk skilji í raun og veru hvað lögin þýði. „Við vitum ekki fyrir víst hvort fólk skilji þetta, sem gæti orðið til þess að konur þori ekki að leita til læknis af ótta við að verða refsað. Það er of lítið af upplýsingum um heilsufarsafleiðingar, og við við höfum of litlar upplýsingar um hvernig við getum hjálpað börnum sem eru fórnarlömb,“ segir Ragnhild í samtali við NT.

Refsivert á Íslandi síðan 2005

Limlestingar á kynfærum kvenna eru einnig refsiverðar á Íslandi, samkvæmt ákvæði sem bætt var við almenn hegningarlög árið 2005 og nemur 6 ára fangelsi, en allt að 16 árum ef af hlýst stórfellt heilsutjón eða bani (218. gr.). Í lögunum er hinsvegar ekki kveðið á um að lögsagan nái út fyrir Ísland. Enn hefur ekki reynt á íslensku lögin og samkvæmt Landlæknisembættinu hafa grunsemdir ekki vaknað um umskurð hér á landi.

Í Bretlandi voru nýlega tveir menn ákærðir fyrir kynfæralimlestingu, í fyrsta sinn þrátt fyrir að lög gegn verknaðinum hafi verið til staðar í 29 ár. Réttarhöldin standa enn. Þar í landi er nú rætt hvort lögbinda ætti tilkynningaskyldu til lögreglu vegna grunsemda um limlestingar á kynfærum kvenna.

Í því samhengi er rétt að geta þess að samkvæmt íslenskum barnaverndarlögum ber þeim sem vinna með börnum skylda til að tilkynna um að barn búið við óviðunandi uppeldisskilyrði, verði fyrir áreitni eða ofbeldi. Sú skylda gengur framar þagnarskyldu og ætti að ná yfir kynfæralimlestingu. 

Sænskir Sómalar berjast gegn limlestingum

Sem fyrr segir er hátt hlutfall innflytjenda í Norrköping í Svíþjóð, þar á meðal eru Svíar af sómölskum uppruna sem reka sérstök samtök um baráttu gegn limlestingu á kynfærum kvenna. Formaður samtakanna, Abdi Nasir Hussain, segist í samtali við NT fagna umræðunni sem farið hafi af stað eftir að fréttist af sómölsku stúlkunum 60.

„Þessar fréttir fengu fólk til að vakna. Við verðum að halda áfram að dreifa boðskapnum um afleiðingar slíkra limlestinga,“ segir Abdir Nasir Hussain. Sjálfur er hann fæddur í Mogadishu höfuðborg Sómalíu, en býr nú í Norrköping og á tvær ungar dætur sem ganga í sænska grunnskóla.

„Ég myndi aldrei leyfa að þær væru limlestar. Jafnvel þótt ættingjar segi að þetta sé forn hefð. Ég segi nei,“ hefur NT eftir honum. Abdir Nasir Hussain veit betur, hann hefur verið upplýstur um það hvað konur í kringum hann mega þola eftir kynfæralimlestingu, kvalir vegna verkja og sársauka þegar þær pissa og hafa blæðingar.

„Kynfæralimlestingar rústa mannslífum,“ segir Abdir Nasir Hussein í samtali við NT.

Ungar stúlkur í Sómalíu. Kynfæralimlesting er á undanhaldi í landinu, …
Ungar stúlkur í Sómalíu. Kynfæralimlesting er á undanhaldi í landinu, en á vissum svæðum í sveitum landsins eru þó enn allt að 98% stúlkna limlestar með þessum hætti. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert