Segist eiga skilið að fá dauðarefsingu

Skipstjórinn var meðal þeirra fyrstu sem fór úr sökkvandi ferjunni.
Skipstjórinn var meðal þeirra fyrstu sem fór úr sökkvandi ferjunni. AFP

Skipstjóri ferjunnar sem hvolfdi og sökk í Suður-Kóreu í apríl á þessu ári segir að hann eigi skilið að hljóta dauðarefsingu. Hann neitar þó að  hafa fórnað lífum farþeganna til að bjarga sínu eigin. Réttarhöld yfir skipstjóranum standa nú yfir.

Skipstjórinn hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir að yfirgefa ferjuna þegar nokkur hundruð manns voru enn fastir í henni. Fleiri en 300 manns létu lífið, aðallega nemendur sem voru í skólaferðalagi. Skipstjórinn og nokkrir úr áhöfn skipsins voru meðal þeirra fyrstu sem fóru í björgunarbátana.

Myndskeið sem tekin voru á síma þeirra sem létu lífið sýna afar áhyggjufulla nemendur bíða þolinmóðir í kojum sínum en skilaboð um að halda kyrru fyrir ómuðu í hátalarakerfi skipsins. Þau áttu að bíða, jafnvel þó að ferjan hallaði verulega.

Skipstjórinn sagði fyrir dómi í morgun að hann hefði sagt meðlimi áhafnarinnar að koma þeim skilaboðum á framfæri að farþegarnir ættu að klæða sig í björgunarvesti og hoppa í sjóinn. Sagðist hann hafa sagt þetta um fimm mínútum áður en fyrsti björgunarbáturinn kom á svæðið. Skilaboðin voru þó aldri flutt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert