Andlega veikur öfgamaður

Tony Abbott, forsætisráðherra Ástralíu.
Tony Abbott, forsætisráðherra Ástralíu. AFP

Tony Abbott, forsætisráðherra Ástralíu, segir að maðurinn sem tók 17 í gíslingu á kaffihúsi í Sydney hafi verið öfgamaður og andlega veikur. Hann segir ennfremur að umsátrið í borginni hafi verið hryðjuverk.

„Hann átti sér langa ofbeldissögu, blindaður af öfgastefnu og var andlega veikur,“ sagði forsætisráðherrann í ávarpi. Hann bætti því við að maðurinn hefði reynt að hjúpa verknaðinn með því að vísa í aðgerðir hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams. 

Gíslatökumaðurinn hét Man Haron Monis og var fimmtugur. Hann hélt 17 í gíslingu á Lindt-kaffihúsinu í miðborg Sydney í dag. 

Hann lést þegar sérsveitarmenn gerðu áhlaup á staðinn fyrr í dag. Tveir gíslar létust einnig í aðgerðunum. 

Abbott segir að Monis hafi verið góðkunningi lögreglunnar. 

„Við vitum að hann sendi fjölskyldum ástralskra hermanna sem létust í Afganistan bréf með meiðandi ummælum og hann var fundinn sekur um brot í tengslum við það,“ sagði Abbott og bætti við að Monis hefði ennfremur birt efni á netinu sem tengist öfgastefnu.

„Því miður er til fólk í okkar samfélagi sem er reiðubúið að taka þátt í ofbeldi sem á sér pólitískar rætur,“ sagði ráðherrann. 

Abbott hrósaði lögreglunni jafnframt fyrri vel unnin störf og sagði að ástralska þjóðin ætti að fagna því hvernig löggæslustofnanir og leyniþjónustan brást við gíslatökunni. 

„Það er augljóst að það má draga lærdóm af þessu, og við munum rannsaka þetta atvik ítarlega til að komast að því,“ sagði hann og bætti við að það muni taka tíma að komast að niðurstöðu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert