Dæmd sek um að hafa beitt þernu ofbeldi

Kona í Hong Kong var í dag dæmd sek um að hafa beitt indónesíska þernu á heimili sínu ofbeldi. Konan, Law Wan-tung, var dæmd sek um 18 ákæruatriði af 20, þar á meðal að hafa veitt þernunni alvarlega áverka, svikið hana um laun og brotið gegn henni á ýmsan hátt. Refsingin verður kveðin upp síðar í mánuðinum

Mál þernunnar, Erwiönu Sulistyaningsih, vakti heimsathygli á síðasta ári er hún var lögð inn á sjúkrahús við komuna heim vegna alvarlegra áverka sem Law hafði veitt henni.

Hún bar vitni í málinu í desember þar sem hún sakaði Law um að hafa beitt sig ofbeldi í nokkra mánuði áður en hún var send til heimalandsins.

Samkvæmt BBC eru um 300 þúsund þernur frá öðrum löndum Asíu starfandi í Hong Kong og er aðbúnaður þeirra oft afar bágborinn.

Eftir dómsuppkvaðninguna í dag sagði Erwiana við fréttamann AFP að hún væri sátt við niðurstöðina. Við réttarhöldin kom fram að Law beitti ýmsum vopnum við ofbeldið, svo sem kústum og herðatrjám. Gengu barsmíðarnar svo langt að í eitt skiptið missti Erwiana meðvitund. Eins var hún svelt af húsmóður sinni.

Erwiana og faðir hennar sögðu frá því viðtali í fyrra að þegar hún sneri aftur heim til Indónesíu hefði hún aðeins verið 25 kg að þyngd en hún var 50 kg þegar hún fór til Hong Kong. Eins var hún með áverka um allan líkamann. 

Ég var pyntuð

Erwiana Sulistyaningsih
Erwiana Sulistyaningsih AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert