Talaði um að enda í Paradís

Omar el-Hussein.
Omar el-Hussein. AFP/danska lögreglan

Umbreyting Omars el-Husseins úr smákrimma í hryðjuverkamann meðan hann sat í fangelsi hefur vakið umræður í Danmörku um fangelsin sem klakstöðvar ofstækis. Hinn 22 ára el-Hussein myrti tvo í tveimur árásum í Kaupmannahöfn liðna helgi.

„Hann var bilaður. Þegar hann kom úr fangelsi var hann gjörsamlega klikkaður,“ segir leigubílstjóri úr hverfinu þar sem el-Hussein bjó og lék sér þegar hann var barn.

Í Kaupmannahöfn hafa yfirvöld lengi átt í vandræðum með glæpagengi og eru nú uggandi yfir því að saga el-Husseins sé til marks um ákveðna þróun, en hann var meðlimur gengis í innflytjendasamfélaginu þar sem hann ólst upp og virðist síðan hafa snúist til öfgahyggju á meðan hann afplánaði tveggja ára dóm fyrir stunguárás.

Eftir að honum var sleppt varð vart trúaráhuga hjá honum, en aðeins hálfum mánuði síðar framdi hann árásirnar; á samkomuhús gyðinga og menningarmiðstöð þar sem fram fór umræða um tjáningarfrelsi og íslam.

„Hlutirnir sem hann talaði um fóru algjörlega yfir höfuðið á drengjunum,“ sagði einn viðmælandi við Berlingske, sem þekkt hafði el-Hussein frá barnæsku. Eftir að hann kom úr fangelsi ræddi hann ekki lengur um „bíla og stelpur“ heldur um að „enda í Paradís“.

Útbreiðsla ofstækis algeng meðal fanga

El-Hussein tók fangavistina út í sama fangelsi og Sam Mansour, róttækur múslimi sem hefur nokkrum sinnum verið dæmdur fyrir að hvetja til hryðjuverka. Fangelsismálayfirvöld höfðu gert viðvart um hættuna á að el-Hussein myndi aðhyllast öfgahyggju, en danska leyniþjónustan segir að engin ástæða hafi verið til að ætla að hann myndi fremja voðaverk.

Í samtali við AFP sagði Kim Österbye, formaður verkalýðsfélags fangelsisstarfsmanna, að útbreiðsla ofstækis væri algeng meðal fanga og það væri ekki óvenjulegt að heyra þá fagna árásunum í París í janúar sl.

Þá heyrðist stundum til þeirra æpa eitthvað um Jyllands-Posten, dagblaðið sem vakti reiði meðal múslima um allan heim þegar það birti skopmyndir af Múhameð spámanni árið 2005. „Það gæti varðað það að einhver vill gera eitthvað við hinn eða þennan gagnrýnanda Múhameðs. Þetta eru reiðiköst, reiðióp,“ sagði Österbye.

Leiðtogi annars verkalýðsfélags fangelsisstarfsmanna hefur kallað eftir því að fangar sem aðhyllast sjónarmið íslamista verði aðskildir frá „móttækilegum“ ungmennum af innflytjendaættum.

Fyrrverandi fangi sagði í samtali við ríkismiðilinn DR að oftækissinnaðir múslimar hefðu reynt að snúa honum gegn innfæddum Dönum og gyðingum. „Þetta er heilaþvottur. Þeir reyna að nálgast þig og vingast við þig,“ sagði maðurinn ungi, sem vildi ekki láta nafns síns getið.

Dómsmálaráðherrann Mette Frederiksen hefur sagt að hún sé opin fyrir því að aðskilja „áhrifamikla“ öfgahyggjumenn og þá sem eiga á hættu að falla fyrir áróðri þeirra. Hún segist veita orðum fangelsismálastarfsmanna mikla athygli, þar sem þeir séu með puttann á púlsinum.

Talið er að tveir af árásarmönnunum í París, Amedy Coulibaly og Cherif Kouachi, hafi snúist til ofstækisfullrar íslamstrúar í fangelsinu þar sem þeir kynntust. Það er einnig talið hafa gerst í tilfellum Mohameds Merahs, al-Kaída-liða sem myrti sjö í árásum í Frakklandi árið 2012, og Mehdis Nemmouches, sem myrti fólk á safni í Brussel í fyrra.

Snýst kannski bara um að tilheyra

Áður en hann var fangelsaður gekk el-Hussein í Brothas-gengið í hverfinu þar sem hann ólst upp. Österbye segir ungmenni úr gengjum fljúga inn og út úr fangelsum. Miðað við höfðatölu er Danmörk næststærsta uppspretta evrópskra jíhadista sem ferðast til Mið-Austurlanda til að taka þátt í átökum.

Louise Aagaard Larsen, sem þjálfar fangelsisstarfsfólk, segir fangelsin þó aðeins hluta vandans. Hún segir að í tilviki el-Husseins hafi fangelsisvistin e.t.v. ýtt honum yfir brúnina, en að dvölin ein og sér sé ekki nóg til að breyta glæpamanni í ofstækismann.

„Það getur verið að einstaka meðlimur gengis sé trúaður en ég held ekki að það séu gengi þar sem trúin er markmið,“ segir hún. Hún segir þekkt tilfelli þess að ungmenni hafi ferðast til Sýrlands og bundið trúss sitt við glæpagengi við komuna aftur. „Spurning er hvort þetta snýst um íslam eða hassmarkaðinn eða eitthvað jafneinfalt og að finnast maður eiga heima einhvers staðar,“ segir hún.

Lögregla viðhafði mikla öryggisgæslu við útför Dan Uzan, annars fórnarlambs …
Lögregla viðhafði mikla öryggisgæslu við útför Dan Uzan, annars fórnarlambs el-Hussein. AFP
Fólk leggur blóm og ísraleska fánann við danska sendiráðið í …
Fólk leggur blóm og ísraleska fánann við danska sendiráðið í Brussel. Ráðamenn í Ísrael hafa hvatt evrópska gyðinga til að flytjast þangað þar sem öryggi þeirra sé ógnað í Evrópu. AFP
Fjöldi fólks heldur kertum á lofti á minningarathöfn um fórnarlömb …
Fjöldi fólks heldur kertum á lofti á minningarathöfn um fórnarlömb árásarinnar í Kaupmannahöfn. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert