Átta um borð í þyrlunni sem hvarf

Um 300 bandarískir hermenn veita nú aðstoð í Nepal.
Um 300 bandarískir hermenn veita nú aðstoð í Nepal. AFP

Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur nú staðfest að átta voru um borð í herþyrlunni sem hvarf af ratsjám fyrr í dag. Þyrlan var stödd nærri Charikot þegar atvikið átti sér stað og er hún hluti af björgunarliði sem sinnir mannúðaraðstoð á hamfarasvæðum í Nepal.

Þyrlan sem umræðir er af gerðinni UH-1 Huey og tilheyrir hún sveit landgönguliða Bandaríkjanna. Sem fyrr segir voru átta um borð í þyrlunni þegar hún hvarf, þ.e. sex bandarískir landgönguliðar og tveir úr röðum hersveita Nepals.

Samkvæmt upplýsingum frá varnarmálaráðuneytinu hafði áhöfn þyrlunnar nýlokið við að skila af sér vistum og hjálpargögnum til bágstaddra þegar samband við hana rofnaði. 

„Skömmu áður en þyrlan hvarf mátti í talstöðinni heyra áhöfnina ræða um vandamál í tengslum við eldsneyti,“ hefur fréttaveita AFP eftir talsmanni varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna. 

Seinast er vitað um ferðir þyrlunnar vestan af Charikot. Síðan þá hefur verið leitað úr lofti og á landi án árangurs. Til þessa hafa engin augljós merki um brotlendingu fundist, s.s. reykur eða eldur, og eru björgunarmenn því vongóðir um að áhöfnin hafi náð að nauðlenda þyrlunni.

Um 300 bandarískir hermenn veita nú mannúðar- og neyðaraðstoð í Nepal vegna þeirra miklu jarðskjálfta sem hafa riðið yfir landið.  

Fyrri frétt mbl.is:

Björgunarþyrla fórst í Nepal

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert