Óvíst hvort Lýðræðishreyfingin bjóði sig fram

Aung San Suu Kyi, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Búrma, segir að flokkur hennar, Lýðræðishreyfingin, muni bráðlega ákveða hvort hann taki þátt í þingkosningum landsins sem fara fram í haust. Um er að ræða fyrstu kosningarnar á landsvísu í aldarfjórðung.

„Lýðræðishreyfingin mun brátt ákveða hvort við munum taka þátt í kosningunum eða ekki. Eftir að við ákveðum það, þá munum við kjósa okkur fulltrúa,“ sagði hún á flokksþingi flokksins í morgun.

Kosningarnar eiga að fara fram í október eða nóvember. Herforingjastjórnin hefur lengi farið með öll völd í landinu en hins vegar hafa ýmsar lýðræðisumbætur verið gerðar á stjórnarfari landsins að undanförnu. Er talið að ef kosningarnar verði frjálsar og sanngjarnar, þá muni Lýðræðishreyfingin fá stóraukið fylgi.

Suu Kyi getur aftur á móti ekki orðið forseti Búrma, sama hvernig kosningarnar fara, samkvæmt umdeildu ákvæði stjórnarskrárinnar, sem hún hefur sagt að sé ósanngjarnt og ólýðræðislegt.

„Þetta ár er árið þar sem við verðum að reyna,“ sagði hún á flokkksþinginu. „Við getum ekki tekið neinu sem gefnu, bara vegna þess að við höfðum áður sigrað. Við verðum alltaf að halda áfram.“

Herinn í Búrma fær fjórðung þingsæta samkvæmt stjórnarskrá landsins og auk þess hefur hann neitunarvald. Þá meinar stjórnarskráin þeim sem eiga maka eða börn af erlendu bergi brotin að verða forseti landsins. Er talið að ákvæðið hafi sérstaklega verið sett í stjórnarskrána til að koma í veg fyrir að Suu Kyi gæti komist til valda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert