Sögulegir tímar í Búrma

Aung San Suu Kyi mætti við þingsetninguna í dag.
Aung San Suu Kyi mætti við þingsetninguna í dag. AFP

Nýtt tímabil hófst í stjórnmálasögu Búrma í dag þegar flokkur Aung San Suu Kyi, fyrrum stjórnarandstöðuleiðtoga, tók formlega við völdum í landinu og þing var sett að nýju. Landinu hefur undanfarna áratugi verið stjórnað af herforingjastjórn, en í nóvember í fyrra vann NLD flokkur Suu Kyi stórsigur í fyrstu frjálsu kosn­ing­un­um í land­inu í meira en hálfa öld.

Valdaskiptin hafa vakið upp von um breytta tíma hjá þjóðinni, en hún hefur um langt skeið verið undirokuð af hernum.

Sólarupprás í Búrma í dag, táknmynd nýrra tíma í lýðræðisátt …
Sólarupprás í Búrma í dag, táknmynd nýrra tíma í lýðræðisátt í landinu sem lengi hefur verið einangrað og stjórnað af hernum. AFP

Leiðtogi lýðræðissinna sem fær ekki að setjast í forsetastólinn

Suu Kyi hefur verið miðpunktur lýðræðishreyfingarinnar í landinu undanfarna áratugi og mætti hún til að fylgjast með þingsetningunni. Lengi voru vangaveltur um það hvort Suu Kyi yrði forseti landsins, en herforingjastjórnin setti ákvæði í nýja stjórnarskrá landsins sem bannaði einhverjum sem ætti erlendan maka eða börn með erlent ríkisfang að gegna því embætti. Suu Kyi á tvo syni með breskt ríkisfang.

Nú mun taka við valferli á nýjum forseta sem mun leysa Thein Sein af sem forseta, en hann er fyrrum herforingi. Árið 2011 ýtti hann úr vör miklum breytingaráformum sem meðal annars tók til viðskipta og stjórnmála. Leiddu þessi áform meðal annars af sér kosningarnar í fyrra og stjórnarskiptin sem fóru formlega í gegn í dag.

Herinn heldur 25% af sætum í þinginu. Þeir eru auðþekkjanlegir …
Herinn heldur 25% af sætum í þinginu. Þeir eru auðþekkjanlegir í grænum einkennisfatnaði. AFP
Frá þingsetningunni í dag. Þingmenn NLD flokksins voru allir klæddir …
Frá þingsetningunni í dag. Þingmenn NLD flokksins voru allir klæddir í appelsínugula einkennisliti. AFP



Ætlar að komast framhjá reglum hersins

Eins og fyrr segir var Suu Kyi bannað að taka við embætti forseta með ákvæðum í stjórnarskránni sem var sérsniðin af herforingjastjórninni. Suu Kyi, sem er orðin 70 ára gömul, hefur sagt að hún muni fara fram hjá þessum kvöðum með að stjórna nýjum forseta „að ofan.“ Hún hefur þó ekki enn gefið upp hver eigi að taka við embættinu.

Engin formleg lög eru um hvernig velja eigi forseta, en það gæti þó gerst á allra næstu dögum. Munu fulltrúar neðri deildar þingsins velja einn frambjóðanda, efri deildarinnar annan fulltrúa og herinn þann þriðja. Sá sem er valinn mun svo taka við af Sein í lok mars þegar tímabil hans endar. Munu bæði neðri og efri deildin kjósa um nýjan forseta.

Ærin verkefni bíða nýju stjórninni

Win Myint, forseti neðri deildar þingsins sagði við þingsetninguna að íbúar Búrma gætu verið stoltir af lýðræðisbreytingunni sem hafi átt sér stað og pólitískri sögu landsins.

Win Myint, forseti þingsins.
Win Myint, forseti þingsins. AFP

Nýrri stjórn landsins bíður nú ærið verkefni við að byggja upp landið, en það er eitt hinna fátækustu í Suðaustur Asíu. Þá eru margir þingmenn NLD flokksins með öllu óreyndir á pólitíska sviðinu og þurfa því að aðlagast fljótt. Fjórðungur þingsins er svo skipaður fulltrúum hersins, en í kosningunum sem fram fóru á síðasta ári fékk NLD flokkurinn 70% allra atkvæða og vann stórsigur.

Verður vel fylgst með næstu skrefum Suu Kyi

Vel er fylgst með þróun mála í landinu og sérstaklega samskiptum Suu Kyi og herforingjastjórnarinnar. Heldur herinn enn völdum í lykilráðuneytunum og er sem fyrr segir með 25% þingsæta.

Gera greinendur ráð fyrir því að Suu Kyi muni reyna að fá herinn til að hjálpa sér við að breyta stjórnarskránni þannig að ákvæðið um sem hamlar henni að taka við forsetaembættinu verið afnumið. Slíkar tilraunir hafa þó ekki skilað árangri hingað til.

Aung San Suu Kyi mun samkvæmt sérsniðinni stjórnarskrá hersins ekki …
Aung San Suu Kyi mun samkvæmt sérsniðinni stjórnarskrá hersins ekki geta boðið sig fram til forseta. Hún hefur þó gefið út að hún muni stjórna „að ofan“ eða sem einskonar skuggastjórnandi. AFP

Hefur verið bent á að á sama tíma og tími NLD flokksins til að aðlaga sig að nýju hlutskipti sé stuttur, þá hafi herforingjastjórnin í raun nýtt tímann frá því árið 2011 til að undirbúa sig undir stjórnarskiptin. Þannig hafi herinn tilnefnt fleiri reyndari og betur menntaða einstaklinga í þingmannahóp sinn. Það verður því fróðlegt að sjá hvað komandi misseri munu bera í skauti sér fyrir þetta land sem um langt skeið var einangrað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert