Með hríðskotariffil undir sólhlíf

Flestir hinna látnu eru erlendir ferðamenn.
Flestir hinna látnu eru erlendir ferðamenn. AFP

Yfirvöld í Túnis segja að 28 hið minnsta hafi látist í hryðjuverkaárás sem var gerð á baðströnd í bænum Sousse fyrr í dag. Meirihluti hinna látnu voru erlendir ferðamenn, m.a. frá Þýskalandi, Bretlandi og Belgíu. 

Öryggissveitir felldu einn mann sem er grunaður um árásina. Hann er sagður hafa falið Kalashnikov-hríðskotariffil undir sólhlíf á ströndinni áður en hann tók hann upp og hóf skothríð. Í framhaldinu gekk hann inn á Hotel Imperial Marhaba í gegnum sundlaugarsvæðið og skaut hann á fólk er hann færði sig á milli svæða. 

Fjölmargir ferðamenn eru nú staddir í Sousse.
Fjölmargir ferðamenn eru nú staddir í Sousse. AFP

Atvikið átti sér stað á strönd sem liggur á milli tveggja hótela í bænum. Yfirvöld segja að verið sé að leita að öðru fólki sem tengist árásinni, en myndir hafa verið birtar af manni sem sést leiddur á brott á milli öryggissveitarmanna. Talið er að hann tengist árásinni, en þetta hefur ekki fengist staðfest.

Yfirvöld í Túnis segja að sex hafi særst í árásinni en líklegt þykir að sú tala sér hærri. 

Fyrr í dag voru árásir einnig gerðar í Frakkland og í Kúveit. Í Frakklandi var gerð árás á gasverksmiðjum skammt frá Lyon, en karlmaður var myrtur og tveir særðust. Þá var gerð mannskæð árás á mosku sjía-múslíma í Kúveit. 

Öryggissveitarmaður stendur vaktina baðströndinni í dag.
Öryggissveitarmaður stendur vaktina baðströndinni í dag. AFP

„Við lágum bara á ströndinni eins og vanalega, svo heyrðum við það sem við töldum í fyrstu vera flugelda,“ segir breskur ferðamaður í samtali við breska ríkisútvarpið. 

„Það varð hins vegar brátt augljóst að þarna var verið að beita skotvopnum, og fólk öskraði og tók til fótanna,“ bætti ferðamaðurinn við. 

Liðsmenn Ríkis íslams hafa hvatt stuðningsmenn sína til að fjölga árásum í föstumánuði múslíma. Samtökin hafa hins vegar ekki lýst yfir ábyrgð á ódæðisverkinu.

Íslamistar hafa sótt í sig veðrið á undanförnum árum í Túnis eftir að einræðisherranum Zine al-Abidine Ben Ali var steypt af stóli í byltingu árið 2011. 

Blóðbað á baðströnd

Tala látinna stendur nú í 28 og þá hafa margir …
Tala látinna stendur nú í 28 og þá hafa margir særst. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert