Óhlýðnuðust forystu Verkamannaflokksins

Harriet Harman tímabundinn formaður Verkamannaflokksins hér ásamt George Osborne fjármálaráðherra …
Harriet Harman tímabundinn formaður Verkamannaflokksins hér ásamt George Osborne fjármálaráðherra og David Cameron forsætisráðherra. AFP

Breska þingið samþykkti í gær lagabreytingu sem felur meðal annars í sér 12 milljarða niðurskurð til velferðarmála. Tillagan var lögð fram af George Osborne fjármálaráðherra úr röðum Íhaldsmanna. Forysta Verkamannaflokksins hvatti þingmenn sína til þess að sitja hjá en það vakti hins vegar athygli að 48 þingmenn Verkamannaflokksins kusu gegn tillögunni, í óþökk flokksforystunnar.

Harriet Harman gegnir stöðu formanns flokksins tímabundið áður en nýr formaður verður kosinn í haust. Hún sat hjá við atkvæðagreiðsluna og lagði til að aðrir þingmenn flokksins myndu gera slíkt hið sama. Lagði flokkurinn fram breytingartillögu sem sneri að afnámi skattaafsláttar til barnafjölskyldna en var sú tillaga ekki samþykkt. 

Harman fékk á sig mikla gagnrýni fyrir afstöðu sína og vildu margir þingmenn Verkamannaflokksins að hún myndi berjast af meiri krafti gegn frumvarpinu. 

Er óhlýðni þingmannanna talin vera til marks um klofning innan flokksins í kjölfar kosningaósigursins í maí sem leiddi að lokum til þess að Ed Miliband sagði af sér sem formaður.

Á meðal þeirra sem kusu gegn tillögunni voru Jeremy Corbyn sem berst um þessar mundir um formannsæti flokksins auk Sadiq Khan og David Lammy sem horfa hýru auga til borgarstjórastólsins í London. 

Hinir frambjóðendurnir til formannsembættis flokksins, þau Andy Burnham, Yvette Cooper og Liz Kendall sátu öll hjá við atkvæðagreiðsluna. Vekur það sérstaklega athygli breskra fjölmiðla að Burnham skuli hafa setið hjá þar sem hann hafði áður gagnrýnt tillögu Osbornes af mikilli hörku. 

Sjá frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert