Tilræðið skipulagt innanlands

Sprengjutilræðið í miðborg Bangkok var vel skipulagt og stóð hópur fólks á bak við það. Ekki er talið að erlend hryðjuverkasamtök eigi aðild að tilræðinu sem kostaði 20 manns lífið. Þetta segir ríkislögreglustjóri Taílands, Somyot Poompanmoung.

Á blaðamannafundi í dag kom fram að talið sé að skipulagningin hafi staðið yfir í meira en mánuð og að yfir tíu manns hafi komið þar að.

„Það er hópur sem stóð að tilræðinu,“ sagði Somyot Poompanmoung á blaðamannafundinum og hann segist telja að hópurinn sé taílenskur ekki útlendingar þrátt fyrir að flestir þeirra sem létust í árásinni séu útlenskir.

Taílensk yfirvöld hafa nú gefið út handtökuskipun á hendur manni sem grunaður er um að hafa komið fyrir rörsprengjunni í hindúahelgidóminum Erawan í Bangkok á mánudagskvöld. Hann yfirgaf síðan helgidóminn og mun hafa sprengt búnaðinn nokkrum mínútum síðar, líklega með farsímasendingu. Birt hefur verið teikning af manninum og byggist hún á myndum sem náðust af honum í öryggismyndavél.

Á fyrstu myndunum sést maðurinn með bakpoka við helgidóminn, en hann leggur pokann með sprengjunni frá sér á bekk. Hann virðist gera sér far um að falla vel í hópinn og tekur myndir á farsímann af nærstöddu fólki áður en hann fer.

Heitið er verðlaunum er nema einni milljón taílenskra bahta, rúmlega 3,7 milljónum króna, fyrir upplýsingar um manninn, sem sagður er vera útlendingur, sennilega af blönduðu kyni en hann gæti einnig hafa dulbúið sig. Lögreglan segir að tveir menn sem einnig sáust á upptökum á vettvangi við helgidóminn séu grunaðir um að hafa átt hlut að máli. 

Svæðið umhverfis Erawan er mjög fjölfarið og þar er að jafnaði fjöldi erlendra ferðamanna. Ráðamenn í Taílandi segja ljóst að markmið sprengjumannsins hafi verið að valda efnahag landsmanna og þá ekki síst ferðaþjónustunni tjóni. Dæmi eru um að erlendir ferðamenn hafi þegar stytt dvöl sína vegna tilræðisins og haldið heim.

Helgidómurinn er vinsæll viðkomustaður ferðamanna. Hann hefur verið opnaður á ný, en Brahma-stytta á staðnum skemmdist lítillega.

Teikning af manninum sem er talinn hafa komið sprengjunni fyrir …
Teikning af manninum sem er talinn hafa komið sprengjunni fyrir í miðborg Bangkok AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert