Íhaldsmenn gætu stöðvað þjóðaratkvæði um fóstureyðingar

Fóstureyðingar eru enn hitamál á Írlandi þar sem margir landsmenn …
Fóstureyðingar eru enn hitamál á Írlandi þar sem margir landsmenn eru enn strangkaþólskir. AFP

Réttur kvenna til að ráða líkama sínum sjálfar gæti orðið fórnarlamb erfiðrar stjórnarmyndunar sem nú stendur yfir á Írlandi. Tveir stærstu flokkar landsins reyna nú að mynda minnihlutastjórn en íhaldssamir óháðir þingmenn gætu komið í veg fyrir að þjóðaratkvæðagreiðsla verði haldin um fóstureyðingarlög landsins.

Þingkosningarnar sem fóru fram í febrúar leiddu ekki til afgerandi niðurstöðu. Tveir stærstu flokkar landsins, Fine Gael og Fianna Fáil, ræða nú um myndun minnihlutastjórnar sem þyrfti að reiða sig á hlutleysi minni flokka og óháðra þingmanna.

Því óttast margir þeir sem berjast fyrir réttindum kvenna að þjóðaratkvæðagreiðsla um rýmkun fóstureyðingarlaga Írlands verði ekki að veruleika á þessu kjörtímabili. Íhaldssamir þingmenn frá dreifðari byggðum Írlands muni krefjast þess að þjóðaratkvæði um fóstureyðingar verði ekki á málaskrá nýrrar ríkisstjórnar.

Fóstureyðingarlög á Írlandi eru ein þau ströngustu í Evrópu. Mannréttindasinnar vilja að ákvæði laganna sem gefur fóstrum eftir getnað sama rétt og fullborin manneskja verði afnumið. Ákvæðinu var bætt inn í stjórnarskrá eftir þjóðaratkvæðagreiðslu árið 1983.

„Almannarómur er skýr og það er þverpólitískur stuðningur við að taka á málinu. Núna þurfum við pólitíska leiðtoga sem munu ekki fórna konum í þágu lítils hóps sem hafa skoðanir sem ganga þvert á afstöðu almennings,“ segir Ailbhe Smyth frá samtökunum Repeal the Eighth sem berjast fyrir því að stjórnarskrárákvæðið verði afnumið.

Frétt The Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert