Drengurinn sem féll í górillugryfjuna í Cincinnati Zoo & Botanical Garden á laugardag hefur verið útskrifaður af sjúkrahúsi og dvelur nú heima í faðmi fjölskyldunnar. Hann er sagður ómeiddur, en starfsmenn dýragarðsins skutu og drápu górillu í garðinum af ótta við að líf drengsins væri í hættu.
Frétt mbl.is: Drengur féll ofan í górillugryfju
Skoðanir eru mjög skiptar á því hvort dýragarðurinn gerði rétt með því að skjóta hinn 17 ára Harambe og hafa sumir kallaðir eftir því að móðir drengsins verði sótt til saka fyrir að hafa ekki haft eftirlit með honum, með þeim afleiðingum að hann komst undir girðingu og ofan í górillugryfjuna.
Kimberly Ann Perkins O'Connor fangaði hluta atburðarásarinnar á símann sinn og sagði í samtali við CNN að hún hefði heyrt drenginn gantast með það við móður sína að fara ofan í díki í gryfjunni. Skyndilega heyrðist eitthvað falla ofan í vatnið fyrir neðan og þegar fólk sá drenginn í díkinu og fór að æpa vakti það athygli górillunnar.
Á myndbandinu virðist Harambe fyrst og fremst forvitinn. Hann skoðar hendur drengsins og togar hann á fætur á buxnastrengnum. Að sögn O'Connor virðast hróp og köll viðstaddra hins vegar hafa komið górillunni úr jafnvægi og hún bregst við með því að taka í fót drengsins og draga hann á eftir sér.
Drengurinn reyndi að bakka frá Harambe, sem togaði hann aftur til sín og ætlaði augljóslega ekki að leyfa honum að fara, segir O'Connor.
Starfsmenn dýragarðsins tóku þá ákvörðun að drepa dýrið frekar en taka áhættuna á því að skjóta það með deyfilyfi. Deyfilyfið hefði ekki verkað samstundis og þá er hætt við því að Harambe hefði brugðið við að fá skotið í sig og tekið reiði sína út á drengnum.
Spurð að því hvort auðvelt var fyrir drenginn að komast í gryfjuna sagði O'Connor að hann hefði líklega haft töluvert fyrir því. Forsvarsmenn dýragarðsins hafa bent á að yfirvöld geri reglulega úttekt á aðstæðum í garðinum, þ. á m. öryggi, en segjast munu skoða tálmana við górillugryfjuna í kjölfar atviksins.
Dýragarðurinn hefur verið opnaður að nýju en górillugryfjan er lokuð.
Dýraverndunarsamtökin PETA eru meðal þeirra sem hafa notað tækifærið til að benda á siðferðileg og praktísk álitaefni hvað varðar föngun dýra. Í Twitter-færslu sögðu samtökin m.a. að jafnvel undir „bestu“ mögulegu aðstæðum væri aldrei ásættanlegt að halda prímötum föngum og að í tilfellum á borð við þetta væri niðurstaðan dauði dýrsins.
Líkt og fyrr segir hafa sumir kallað eftir því að foreldrar drengsins verði látnir sæta ábyrgð vegna dráps górillunnar og aðrir hafa gagnrýnt dýragarðinn fyrir að gæta ekki betur að öryggi og fyrir ákvörðun sína um að skjóta Harambe.
Þó virðast flestir á því að starfsmenn garðsins hafi ekki átt annarra kosta völ, þar sem ómögulegt var að spá fyrir um hegðun dýrsins og fyrirsjáanlegt hver viðbrögðin hefðu orðið ef drengurinn hefði látist sökum þess að menn vildu þyrma górillunni.