Górillan gætti barnsins

Górillan Jambo stóð fyrir Levan Merritt í gryfjunni og gætti …
Górillan Jambo stóð fyrir Levan Merritt í gryfjunni og gætti hans. Skjáskot af YouTube

Breskur maður, sem féll ofan í górillugryfju í dýragarði er hann var barn, segist sammála þeirri ákvörðun dýragarðsyfirvalda í Cincinnati að fella górillu er fjögurra ára drengur komst inn í górillugryfju í síðustu viku.

Levan Merritt var fimm ára árið 1986 er hann rann til og hrapaði ofan í górillugryfjuna í Jersey-dýragarðinum í Bretlandi. Hann rotaðist en fljótlega kom silfurbakurinn Jambo að honum og verndaði hann fyrir öðrum górillum í gryfjunni. Jambo stóð yfir drengnum um stund og lagði stóran hramminn varlega á hann.

Þrátt fyrir þessa jákvæðu reynslu af kynnum sínum af górillum styður Merritt ákvörðun dýragarðsyfirvalda í Cincinnati að skjóta górilluna Harambe til bana er drengurinn fór inn í gryfjuna um síðustu helgi. 

Merritt segir í samtali við The Sun að málið um helgina hafi vekið upp sterkar minningar frá atvikinu í Jersey-dýragarðinum. „Að sjá myndband af atburðinum frá Bandaríkjunum vakti upp allar þessar minningar aftur,“ segir Merritt. „Ég fann til með drengnum en einnig með górillunni. Urðu þeir að drepa hann? Hann hefði ekki áttað sig á styrk sínum samanborið við styrk barnsins. Hann hefur verið í haldi allt sitt líf og hefur aldrei áður komið við mannsbarn.“

Merritt bendir líka á að górillan hafi gripið í barnið og dregið það af stað á miklum hraða. „Barnið er smágert og hefði auðveldlega getað slasast. Svo þeir tóku rétta ákvörðun til að bjarga lífi drengsins.“

Móðir Merritts, Pauline, er þessu ósammála. „Það átti ekki að drepa hann að mínu mati. Dýrahirðir górillunnar hefði átt að fara inn í gryfjuna til að fá hana í burtu og þannig hefðu þeir getað náð í drenginn. Það hefði alls ekki átt að drepa hann.“

Atvikin eru þó nokkuð ólík. Górillan Jambo verndaði Merritt. Hann ógnaði honum ekki. Hann sat við hlið drengsins um stund og gætti hans. Er Merritt komst til meðvitundar, sat Jambo rólegur við hlið hans. Er Merritt fór að gráta, fór Jambo af vettvangi og fólk stökk niður í gryfjuna og náði í drenginn.

Í kjölfar atviksins, sem náðist á myndband þótt um þrjátíu ár séu síðan það varð, naut Jambo mikillar heimsfrægðar. Stytta var reist af honum í garðinum. 

Merritt fór ítrekað og heimsótti Jambo á meðan hann var enn á lífi. Sterkt samband myndaðist á milli þeirra. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert