Munkur í haldi vegna smygls

Hræ fjörutíu tígrisdýrahvolpa fundust í hofinu.
Hræ fjörutíu tígrisdýrahvolpa fundust í hofinu. AFP

Taílensk yfirvöld hafa handtekið munk sem grunaður er um að smygla tígrisdýraskinnum og tönnum úr búdda-hofi í landinu sem oftast er kallað Tígrisdýrahofið. Yfirvöld fengu á mánudag dómsúrskurð til að fjarlægja öll tígrisdýrin úr hofinu, um 137 talsins. Í þeirri aðgerð, sem enn stendur yfir, fundust m.a. hræ af 40 tígrisdýrahvolpum.

Munkarnir sem reka hofið hafa lengi verið sakaðir um dýraníð og smygl. Þeir hafa aldrei viðurkennt það og ekki viljað vinna með yfirvöldum.

Lögreglan handtók munkinn og tvo aðra menn er þeir voru að reyna að yfirgefa hofið í dag. Lögreglan haldlagði einnig tvö tígrisdýraskinn og um 700 minjagripi búna til úr tönnum og skinni dýranna. Þá fundust einnig 10 vígtennur úr tígrisdýrum. 

Yfirmaður dýraverndunarmála í Taílandi segir í samtali við BBC að þetta þyki sanna að munkarnir og starfsmenn hofsins hafi stundað ólöglegt smygl. Tígrisdýr eru í útrýmingarhættu og njóta því sérstakrar verndar alþjóðalaga.

Yfirvöld ætla að ákæra rekstraraðila hofsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert