Tígrisdýrin flutt úr hofinu

Um þúsund manns taka þátt í aðgerðinni við að flytja …
Um þúsund manns taka þátt í aðgerðinni við að flytja tígrisdýrin úr hofinu. AFP

Yfirvöld í Taílandi eru byrjuð að flytja tígrisdýr á brott frá Búdda-hofi í landinu. Stjórnendur hofsins hafa verið sakaðir um illa meðferð og smygl á dýrum. 

Í gær voru þrjú af 137 tígrisdýrum hofsins flutt í burtu af svæðinu. Um þúsund manns taka þátt í aðgerðinni og mun hún taka heila viku.

Munkarnir sem fara með völdin í hofinu neita ásökunum. Þeir mótmæltu í fyrstu brottflutningnum en í kjölfar dómsúrskurðar gáfu þeir eftir.

Dýrin verða flutt í athvörf. 

 Wat Pha Luang Ta Bua-tígrisdýrahofið er vinsæll ferðamannastaður. Munkarnir sem þar dvelja hafa ítrekað staðið í vegi fyrir því að dýrin verði tekin af þeim.

Í hofinu geta ferðamenn gefið tígrisdýrunum og tekið af þeim myndir gegn gjaldi. Reglur hofsins banna þó aðgangseyri að svæðinu. 

Yfirmaður þjóðgarðsdeildar í Taílandi segir að áður hafi verið reynt að vinna með munkunum að flutningi dýranna en það hafi ekki gengið. Því hafi reynst nauðsynlegt að fá dómsúrskurð. 

Munkarnir eru sakaðir um að hafa ræktað dýrin sem er ólöglegt. Þá hafa þeir verið sakaðir um að smygla tígrisdýrum og að beita þau harðræði.

Á síðustu árum hafa birst myndir af starfsmönnum tígrisdýra-hofsins að taka harkalega á dýrunum, m.a. kýla í þau, toga þau og slá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert