Fundu 40 dauða tígrisdýrahvolpa

Tígrisdýr í búri í Wat Pha Luang Ta Bua hofinu …
Tígrisdýr í búri í Wat Pha Luang Ta Bua hofinu í Taílandi. AFP

Hræ fjörutíu tígrisdýrahvolpa fundust í Búdda-hofi í Taílandi er yfirvöld voru að flytja tugi tígrisdýra af svæðinu. Munkarnir sem reka hofið hafa lengi verið sakaðir um dýraníð og var dómsúrskurður fenginn svo að flytja mætti dýrin af svæðinu. Munkarnir hafa ætíð neitað ásökununum.

Frétt mbl.is: Tígrisdýrin flutt úr hofinu

Aðgerðin er gríðarlega umfangsmikil. Hún mun taka viku. Hofið er vinsæll viðkomustaður ferðamanna. Þar geta gestir fengið að gefa dýrunum að éta og tekið af þeim myndir. Hins vegar hafa myndirnar oft sýnt illa meðferð starfsmanna á þessum dýrum.

Á myndum sem birtar hafa verið á samfélagsmiðlum af aðgerðinni í hofinu sést að hræ fjölmargra tígrisdýrahvolpa fundust. 

„Það hefur haft einhverja þýðingu fyrir þá að geyma hræin,“ segir Adisorn Nuchdamrong, hjá þjóðgarðsstofnun Taílands, við Reuters-fréttastofuna. „En ég get ekki ímyndað mér hvers vegna þeir gerðu það.“

Einnig fundust líkamsleifar annarra dýra í frystigeymslum í hofinu.

Eitt hundrað þrjátíu og sjö tígrisdýr voru í hofinu og hafa 40 þeirra nú verið flutt frá því. Aðgerðin mun taka um viku.

Allt frá árinu 2001 hafa yfirvöld í Taílandi verið í deilum við munkana sem reka tígrisdýrahofið. Yfirvöld hafa viljað fylgjast með dýrunum og síðustu ár flytja þau af staðnum. Munkarnir hafa hins vegar ekki verið samvinnuþýðir og þurfti því dómsúrskurð til að hefja aðgerðina. 

Munkarnir eru einnig sakaðir um að hafa ræktað tígrisdýr og smyglað þeim. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert