Borgað fyrir að hafa mök við börn

Samkvæmt hefð á sumum svæðum í Malaví þarf að hjálpa …
Samkvæmt hefð á sumum svæðum í Malaví þarf að hjálpa börnum að komast til fullorðinsára með kynferðislegri hreinsun. Af Wikipedia

Á afskekktum svæðum í Malaví er hefð fyrir því að stúlkur á kynþroskaaldri séu látnar hafa kynmök við karlmenn sem kallast „hýenur“. Mennirnir frá borgað fyrir. Öldungarnir, sem fara með völdin í þorpunum, líta ekki á þessa gjörninga sem nauðganir heldur sem „hreinsun“.

Í ítarlegri fréttaskýringu BBC um málið segir að hins vegar séu þessar þvinguðu aðgerðir allt annað en hreinsanir því þær verða m.a. til þess að breiða út smitsjúkdóma. 

Blaðamaður BBC hitti mann að nafni Eric Aniva í suðurhluta Malaví. Hann er einn af „hýenunum“ í þorpinu sínu. Þannig er hann ráðinn af öldungaráðinu til að sinna því hlutverki að „hreinsa“ stúlkurnar er þær komast á kynþroskaskeið. Hefðin teygir anga sína enn lengra því ef karlmaður í þorpinu deyr þá þarf eiginkonan að eiga kynmök við Aniva áður en hún getur jarðað mann sinn. Ef kona fer í fóstureyðingu er sami hátturinn hafður á. Hún þarf á „hreinsun“ að halda. 

BBC komst að því að táningsstúlkurnar eru þvingaðar til að hafa mök við hýenurnar eftir að þær fara í fyrsta skipti á blæðingar. Þetta þurfa þær að gera í þrjá daga í röð. Þannig eru þær sagðar breytast úr stúlkum í konur. Stúlkurnar hafa ekkert val, ef þær neita eru álög lögð á þær og fjölskyldur þeirra, álög sem þorpsbúar taka trúanleg.

„Flestar þeirra sem ég hef sofið hjá eru stúlkur á skólaaldri,“ segir Aniva í samtali við BBC. hann segir að flestar séu stúlkurnar 12-13 ára en hann kjósi að hafa þær eldri. „Þær eru stoltar af þessu og segja öðrum að þessi maður sé raunverulegur karlmaður, hann kunni að geðjast konum.“

Myndband BBC.

En stúlkurnar segja blaðamanni BBC allt aðra sögu. Þær segjast ekki hafa haft neitt val, þær hafi látið til leiðast fjölskyldu sinnar vegna. „Ef ég hefði neitað hefði fjölskyldan mín fengið sjúkdóma og jafnvel dáið, svo ég var hrædd,“ segir er ung stúlka. 

Aniva á tvær eiginkonur. Hann segist hafa sofið hjá 104 stúlkum og konum. En blaðamaður BBC fékk það á tilfinninguna að hann hefði misst töluna á fjöldanum. Hann á fimm börn með eiginkonum sínum en veit ekki hversu mörg hann á með konunum sem honum er borgað fyrir að sofa hjá. 

Í þorpinu hans Aniva eru tíu „hýenur“. Karlmennirnir frá greidda 4-7 Bandaríkjadollara í hvert skipti sem þeir hafa mök við konur til að „hreinsa“ þær. 

Í hverju þorpi er sérstakur hópur kvenna sem hefur það hlutverk að kenna ungum stúlkum á kynþroskaaldri um skyldur sínar og hvernig eigi að geðjast karlmönnum kynferðislega. Þessum undirbúningi lýkur svo á því að „hýenan“ mætir til að hafa mök við stúlkurnar. 

Kvennahópurinn segir í samtali við BBC að karlmennirnir sem veljist til verksins séu „siðferðislega sterkir“ og geti því ekki smitað stúlkurnar af kynsjúkdómum á borð við HIV. Bannað er að nota verjur í athöfninni.

Sameinuðu þjóðirnar telja að einn af hverjum tíu Malövum séu smitaðir af HIV-veirunni. Blaðamaður BBC spurði hýenuna Aniva hvort hann væri með HIV. Hann kom á óvart með því að svara þeirri spurningu játandi. Hins vegar tók hann fram að hann segi stúlkunum ekki frá því.

Blaðamaður BBC komst einnig að því að þorpsbúar vita að gjörningurinn er fordæmdur af öðrum, m.a. mannréttindasamtökum sem hafa hafið baráttu gegn hefðum sem þessum. Þá hefur ríkisstjórn Malaví einnig fordæmt gjörninginn og segist ætla að reyna að stöðva hann á þeim svæðum þar sem hann er enn viðhafður.

Það eru foreldrar stúlknanna sem ráða hýenurnar til starfa. Talsmenn velferðarmála ríkisstjórnarinnar segja að eftir því sem foreldrarnir eru betur menntaðir séu þeir líklegri til að láta dætur sínar ekki ganga í gegnum þetta. 

Þorpsbúarnir segja hins vegar ekkert athugavert við menningu sína. Þjálfa verði stúlkur til að sína góða hegðun, svo þær villist ekki af leið, svo þær verði góðar eiginkonur og geti fullnægt eiginmanni sínum. 

Hefðin hefur viðgengist í margar aldir að sögn þeirra sem rannsakað hafa uppruna þeirra. Þær eiga rætur að rekja til þeirrar trúar að aðstoða þurfi börn til að koma þeim til fullorðinsáranna.

Á mörgum svæðum Malaví er hefðin aflögð. En sunnarlega í landinu, á einangruðum og afskekktum svæði, viðgengst hún enn. 

Þorpshöfðingjar á sumum svæðum hafa látið til sín taka við að útrýma hreinsuninni. En Malaví er eitt fátækasta ríki heims og þegar hungursneyðin bankar reglulega upp á er ekki forgangsmál stjórnvalda að taka á hefðum og siðum sem þessum. 

Eiginkona hýenunnar Aniva er ein þeirra kvenna sem vilja að látið verði af þessari sið. Hún fékk sjálf „hreinsun“ hjá honum áður en þau svo giftust. „Við erum þvingaðar til að hafa mök við hýenurnar. Við veljum það ekki.“

Þegar fréttamaður BBC spyr Aniva hvað muni gerast þegar hans eigin dætur komast á kynþroskaaldur. Verða þær látnar sofa hjá „hýenu“?

„Nei, ekki dætur mínar. Ég get ekki leyft það. Nú er ég að berjast gegn þessari hefð.“

Blaðamaður BBC: „Svo þú ert að berjast gegn þessu, en ert sjálfur að stunda þetta?“

Aniva: „Nei nú ætla ég að hætta.“

Blaðamaður BBC: „Í alvöru?“

Aniva: Já, í alvöru. Ég ætla að hætta.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert