Öfgar til hægri eða öfgar í trú?

Lögregla leiðir gesti verslunarmiðstöðvarinnar af vettvangi.
Lögregla leiðir gesti verslunarmiðstöðvarinnar af vettvangi. AFP

Vitni að upphafi skotárásarinnar í München í dag segir árásarmann hafa æpt skammaryrði um útlendinga. Fyrr í kvöld hafði birst myndband sem virðist sýna árásarmann æpa að hann sé Þjóðverji.

Vitnið, Luan Zequiri, kveðst hafa verið á McDonald‘s við Olympia verslunarmiðstöðina þegar skotárásin hófst. Í samtali við þýsku sjónvarpsstöðina  N-tv sagðist hann hafa heyrt ókvæðisorðin um útlendinga og „það var mjög hátt öskur“.

Zequiri sá aðeins einn árásarmann sem klæddist stígvélum og bakpoka.
„Ég leit í áttina að honum og hann skaut tvær manneskjur á stiganum,“ sagði Zequiri sem faldi sig og flúði þegar árásarmaðurinn var farinn.

Frásögn Zequiri og fyrrnefnt myndskeið virðist þó stangast á við frásögn vitnis sem CNN ræddi við og kallaði einungis Lorettu. Sú sagði árásarmanninn hafa komið út af sama salerni á McDonald‘s og sonur hennar og að hún hefði heyrt hann segja „Allahu Akbar“.

„Ég heyri, eins og í viðvörunarbjöllu og búmm, búmm, búmm... Og hann er enn að drepa börnin. Börnin sátu til að borða. Þau geta ekki hlaupið,“ sagði Loretta við CNN.

Lögregla með óbreyttum borgurum á vettvangi árásarinnar.
Lögregla með óbreyttum borgurum á vettvangi árásarinnar. AFP

Fyrr í vikunni réðist 17 ára hælisleitandi með exi á lestarfarþega og særði fimm. Samtökin sem kenna sig við íslamskt ríki hafa lýst yfir ábyrgð á árásinni líkt og þau hafa gert vegna annarra hryðjuverkaárása sem átt hafa sér stað í Evrópu á síðustu mánuðum. Lögreglan í München segir hinsvegar að enn bendi ekkert til þess að árásin í dag tengist öfga-íslam. Glöggir lesendur hafa hugsanlega tengt dagsetninguna við hryðjuverkin í Útey fyrir fimm árum síðan, en lögregla hefur heldur ekki gefið upp hvort árásin tengist útlendingahatri eða öfgahægri-stefnu.

Þýskir miðlar greina frá því að um 20 séu særðir eftir skotárásina í München, margir alvarlega og að börn séu þar á meðal. Níu eru látnir, þeirra á meðal 15 ára stúlka, að sögn Süddautsche Zeitung. Lögreglan hefur ekki staðfest fregnirnar en hefur staðfest að í það minnsta tíu séu særðir.

Ekki er ljóst hvort fleiri en einn árásarmaður er að verki en lögregla rannsakar nú hvort einn hinna látnu sé gerningsmaðurinn.

Samkvæmt Guardian fannst líkið á grasbala við verslunarmiðstöðina og sendi lögregla vélmenni að því í fyrstu að ótta við að sprengiefni kynnu að leynast í poka við hlið líksins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert