Handtekinn vegna hryllilegs dráps á barni

Lögregla í Bangladess. Mynd úr safni.
Lögregla í Bangladess. Mynd úr safni. AFP

Lögregla í Bangladess handtók í dag starfsmann í garnverksmiðju en hann er grunaður um að hafa pyntað níu ára dreng með loftpressu sem varð til þess að drengurinn lést. Er þetta annað atvikið á tæpu ári þar sem drengir láta lífið vegna loftpressa.

Sagar Barman lét lífið vegna innvortis meiðsla seint í gærkvöldi en fjölskylda drengsins heldur því fram að samstarfsmenn hans í verksmiðjunni hafi troðið loftpressunni inn í endaþarm drengsins og kveikt á henni.

Fyrri frétt mbl.is: Dældu lofti í endaþarm drengsins

Drengurinn starfaði í verksmiðju í bænum Rupganj, sunnan við Dhaka. Þar starfa milljónir barna í hinum ýmsu störfum, mörg þeirra í vafasömu aðstæðum.

Yfirmenn í verksmiðjunni hafa verið handteknir og er fleiri meintra gerenda leitað, þar af þriggja verkstjóra.

Lögreglumaðurinn Jasim Uddin, sem rannsakar málið, sagði að yfirmenn í verksmiðjunni hafi verið reiðir út í drenginn og föður hans, sem starfaði einnig í verksmiðjunni, eftir að þeir gengu inn á svæði sem var bannað almennum starfsmönnum.

Þrettán ára drengur lét lífið í svipuðu atviki í ágúst á síðasta ári í borginni Khulna. Málið vakti gríðarlega reiði og fjölmargir mótmæltu á götum úti og kröfðust réttlætis fyrir barnið. Tveir menn voru dæmdir til dauða vegna þess máls.

Þá mótmæltu þúsundir síðasta sumar eftir að fregnir bárust af því að 13 ára drengur í landinu hafi verið bundinn við staur og barinn til dauða eftir að hann var sakaður um að hafa stolið hjóli.

Sex menn voru dæmdir til dauða vegna þess máls.

Drengurinn sem lét lífið í gær var sagður hafa verið að þrífa ákveðið svæði nálægt loftpressunni í verksmiðjunni í gær þegar ráðist var á hann. Verksmiðjan framleiðir garn fyrir efnaverksmiðjur sem selja efni til vestrænna framleiðslufyrirtækja.

Drengurinn var fluttur á sjúkrahús eftir að loftpressan var sett í endaþarm hans og lést hann þar aðeins nokkrum klukkustundum síðar.

Lögregla rannsakar jafnframt af hverju drengurinn starfaði í verksmiðjunni en í landinu er ólöglegt að ráða börn í vinnu undir 18 ára aldri.

UNICEF gerir þó ráð fyrir því að 4,9 milljónir barna á aldrinum 5 til 14 ára starfi í verksmiðjum í Bangladess.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert