„Ég get ekki drepið þá alla“

Rodrigo Duterte tók við forsetastólnum í júní. Síðan þá hefur …
Rodrigo Duterte tók við forsetastólnum í júní. Síðan þá hefur margt gerst. AFP

„Vandinn er sá [...] að ég get ekki drepið þá alla [...] jafnvel þó að mig langi til þess,“ sagði forseti Filippseyja, Rodrigo Duterte, við fréttamenn í dag. Hann vill fá sex mánuði til viðbótar til að koma „skikki“ á eiturlyfjavandann í landinu.

3.000 manns hafa fallið í stríðinu gegn fíkniefnum sem Duterte boðaði til í lok júní. Um þriðjungur fyrir hendi lögreglu. Margir hafa verið teknir af lífi á götum úti án dóms og laga.

Duterte segist ekki hafa gert sér grein fyrir umfangi vandans fyrr en hann varð forseti. Hann hefur verið sakaður um að hafa hvatt til og fyrirskipað aftökur á hundruðum eiturlyfjasala og eiturlyfjaneytenda frá því að hann tók við embætti í júní.

„Ég hafði ekki hugmynd um að það væru hundruð þúsunda manna í eiturlyfjaviðskiptum,“ sagði hann við fréttamenn um helgina.

Í síðustu viku kom maður fram í fjölmiðlum og sagðist hafa verið í aftökusveit Duterte er hann var borgarstjóri í Davao. Talsmaður Duterte sagði ekki rétt að slík aftökusveit hafi verið til en á blaðamannafundi um helgina var forsetinn spurður beint út í þessi ummæli.

„Ef glæpamaður berst um, ef hann berst til dauða, þá má drepa hann,“ sagði forsetinn. „Ekki hika við að hringja í okkur, lögregluna eða gera það sjálfur ef þú ert með byssu [...] þú hefur minn stuðning.“

Duterte hefur verið harðlega gagnrýndur, m.a. af mannréttindasamtökum víðs vegar um heiminn. Hann er hins vegar vinsæll meðal margra landa sinna.

Frétt CNN um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert