Ríki íslams lýsir ábyrgð á árás

Hryðjuverkasamtökin Ríki íslams hafa lýst yfir ábyrgð á árásinni í næturklúbbnum í Istanbúl á nýársnótt. 39 létust í árásinni. Borin hafa verið kennsl á 38 fórnarlambanna, 27 útlendinga og 11 Tyrki. Árásarmannsins er enn leitað.

Í tilkynningu frá vígasamtökunum sem hefur verið dreift á samfélagsmiðlum kemur fram að hermaður kalífadæmisins hafi framið árásina. Samtökin hafa framið fleiri árásir að undanförnu í Tyrklandi en tyrkneski herinn hefur barist gegn vígasamtökunum í nágrannaríkinu Sýrlandi.

Árásarmannsins er enn leitað en talið er að hann hafi skotið 180 skotum úr byssu sinni þær 7 mínútur sem árásin stóð yfir á næturklúbbnum. Á milli 600 og 700 manns voru að fagna nýju ári á næturklúbbnum Reina þegar hann lét til skarar skríða. Nú er vitað að árásarmaðurinn kom með leigubíl á staðinn en fyrri fregnir um að hann hafi verið í jólasveinabúning hafa verið dregnar til baka.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert