Herða landamæraeftirlit í Tyrklandi

AFP

Sérsveit tyrknesku lögreglunnar handtók nokkra í dag í tengslum við árás á næturklúbbi í Istanbúl á nýársnótt. Eftirlit á landamærum Tyrklands hefur verið hert til þess að koma í veg fyrir að fjöldamorðinginn sleppi úr landi. 39 létust í árásinni en Ríki íslams segir árásina verk hermanns vígasamtakanna.

Reuters-fréttastofan hefur eftir Veysi Kaynak, aðstoðarforsætisráðherra Tyrklands, að maðurinn sé líklega Uighur-múslimi frá Kína og að tyrkneska öryggislögreglan viti nú hvar hann kunni að fela sig.

Kaynak sagði manninn vera „sérþjálfaðan“ liðsmann sellu, en að hann hefði verið einn að verki í Reina næturklúbbinum. Ekki væri útilokað að hann hefði flúið úr landi, en að líklegra væri þó að hann muni finnast í Tyrklandi. 

Ekki hefur verið upplýst hversu margir voru handteknir en fólkið er talið tengjast árásarmanninum, samkvæmt frétt Anadolu-ríkisfréttastofunnar. Fólkið er úr minnihlutahópi Uighur-múslíma frá héraðinu Xinjiang í Kína. 

Fyrir utan þá sem voru handteknir í úthverfi Istanbúl í dag eru 36 í haldi vegna rannsóknarinnar. Árásarmaðurinn gengur hins vegar enn laus. 

Leitað er í öllum bílum sem fara yfir landamærin í Edirne, sem er í Vestur-Tyrklandi, en stöðin er á landamærum Grikklands og Búlgaríu. Utanríkisráðherra Tyrklands greindi frá því í gær að vitað væri hver tilræðismaðurinn er en hann skaut 120 skotum á fólk sem var að fagna nýju ári í næturklúbbnum á aðeins sjö mínútum. Af þeim 39 sem létust eru 27 útlendingar, þar á meðal frá Líbanon, Sádi-Arabíu, Ísrael, Írak og Marokkó.

Á þriðjudag voru 20 fullorðnir einstaklingar og 20 börn þeirra, allt fólk úr þremur fjölskyldum, handteknir í borginni Izmir. Fólkið hafði flutt þangað 10. desember frá borginni Konya. Talið er að fjölskyldurnar hafi átt í samskiptum við morðingjann þar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka