12 handteknir í leit að árásarmanninum

Blóm og kerti hafa verið skilin eftir við Brandenborgarhliðið í …
Blóm og kerti hafa verið skilin eftir við Brandenborgarhliðið í Berlín af þeim sem vilja minnast fórnarlamba árásarinnar: Þá hefur hliðið verið lýst upp í tyrknesku fánalitunum. AFP

Tyrkneska lögreglan hefur handtekið 12 manns í tengslum við leitina að árásarmanninum sem varð 39 manns að bana á næturklúbbnum Reina í Istanbúl á gamlárskvöld. Húsleit hefur þá verið gerð á nokkrum stöðum, en árásarmaðurinn sjálfur hefur enn ekki verið handtekinn.

Numan Kurtulmus, aðstoðarforsætisráðherra Tyrklands, greindi frá því í gær að tekist hefði að ná fingraförum árásarmannsins og lýsingu á útliti hans, sem ætti að flýta fyrir því að kennsl yrðu borin á manninn.

Tyrkneska lögreglan hefur nú birt þessa mynd af manninum sem …
Tyrkneska lögreglan hefur nú birt þessa mynd af manninum sem talinn er hafa myrt 39 manns í árásinni á næturklúbbinn. AFP

Tyrkneskir fjölmiðlar hafa eftir heimildamönnum innan lögreglunnar að talið sé að árásarmaðurinn komi frá Úsbekistan eða Kirgistan.

Lögregla hefur birt nýjar myndir af árásarmanninum, en hann hefur ekki enn verið nafngreindur. Sumir tyrkneskir fjölmiðlar fullyrða þó að búið sé að bera kennsl á manninn, en að þær upplýsingar hafi enn ekki verið gerðar opinberar.

Rannsaka hvort hann tengist árásinni á Ataturk-flugvöllinn

Hryðjuverkasamtökin Ríki íslams hafa lýst yfir ábyrgð á árásinni. Er lögregla nú sögð rannsaka hvort árásarmaðurinn tilheyri sellu innan hryðjuverkasamtakanna, sem sögð er hafa borið ábyrgð á árás á Ataturk-flugvöllinn í Istanbúl í júní.

Tyrkneskir fjölmiðlar segja árásarmanninn hafa komið til Tyrklands í nóvember, ásamt konu sinni og tveimur börnum. Segja þeir hann hafa haft fjölskyldu sína, sem sé í hópi hinna handteknu, með í för til að forðast að vekja eftirtekt.

39 manns frá 15 þjóðlöndum fórust í árásinni, en fórnarlömbin voru frá Tyrklandi, Sádi-Arabíu, Írak, Líbanon, Jórdaníu, Indlandi, Marokkó, Þýskalandi, Sýrlandi, Ísrael, Túnis, Belgíu, Kúveit, Kanada og Rússlandi. Þá eru 69 manns á sjúkrahúsi vegna sára sem þeir hlutu og er ástand þriggja þeirra sagt vera alvarlegt.

Fréttavefur BBC hefur eftir Mehmet Yilan, barþjóni á Reina sem var í vinnunni þegar árásin var gerð, að svo virðist sem árásarmaðurinn hafi komið áður á næturklúbbinn. Hann „æddi inn og tók strax strikið til vinstri, en þar er alltaf fleira fólk [...] hann virtist vita hvert hann ætlaði að fara.

Hann skaut handahófskennt en miðaði þó á efri hluta líkamans. Hann vildi ekki bara særa fólkið,“ sagði Yilan.

Líkfylgd Yunus Gormek, eins þeirra sem létu lífið í árásinni …
Líkfylgd Yunus Gormek, eins þeirra sem létu lífið í árásinni á Reina-næturklúbbinn. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka