Sjö fórnarlömb nafngreind

AFP

Fimmtán ára gömul stúlka, Olivia Campbell, er meðal þeirra sem létust í árásinni í Manchester á mánudagskvöldið. Mynd sem móðir hennar hafði sett á samfélagsmiðla það kvöld var dreift út um allt en Olivia hafði farið á tónleikana með vini sínum í tilefni af afmæli hans. 

Auk hennar var Kelly Brewster, 32 ára starfsmaður á skrifstofu í Sheffield, nefnd sem eitt fórnarlamba árásarmannsins. Í morgun var tilkynnt um tvö fórnarlömb til viðbótar; vinkonurnar Alison Howe og Lisa Lees, en þær biðu í anddyrinu eftir dætrum sínum sem voru á tónleikunum.

Alls hafa verið gefin upp nöfn sjö af 22 fórnarlömbum hryðjuverksins, þar á meðal 8 ára gömul stúlka, 18 ára stúlka og 28 ára gamall karlmaður.

Olivia Campbell.
Olivia Campbell. Skjáskot af Facebook

Charlotte Campbell, móðir Oliviu, tilkynnti á Facebook í nótt um andlát dóttur sinnar. „Farðu og syngdu með englunum og haltu áfram að brosa. Mamma elskar þig svo mikið,“ skrifar hún til dóttur sinnar.

Líkt og margir aðstandendur ungmenna sem voru á tónleikunum á mánudagskvöldið leitaði Campbell til fólks á samfélagsmiðlum eftir upplýsingum um ástvini sína. Í viðtali við BBC í gær lýsti Campbell því hvernig hún væri búin að hringja út um allt, í lögreglu, sjúkrahús, miðstöðvar þar sem börnum og ungmennum er komið fyrir. Pabbi hennar væri að leita á götum úti. Vinir þeirra væru að leita, jafnvel fólk sem hún þekkti ekki neitt. En engin svör og sími hennar dauður. 

„Þeir sögðu mér einfaldlega að halda ró minni og bíða eftir símtali. Ég þori ekki að fara út úr húsi í þeirri von að hún komi jafnvel heim,“ sagði Campbell í viðtali við BBC í gær. 

Kelly Brewster fór á tónleika Ariana Grande með systur sinni, Claire, og frænku, Hollie Booth. Þær særðust báðar í árásinni og eru á sjúkrahúsi. Unnusti hennar, Ian Winslow, greindi frá andláti hennar á Facebook í nótt.

„Ég veit ekki hvernig þetta gengur fyrir sig en þetta eru slæmar fréttir. Kelly Brewster var ein þeirra sjúklinga sem ekki var búið að nafngreina. Hún lést því miður í hryðjuverkaárásinni í gær,“ skrifar hann. Daginn fyrir árásina höfðu þau gengið frá kaupum á íbúð saman. 

Svo virðist sem hún hafi myndað skjól fyrir systur sína og frænku þegar sprengjan sprakk en þær voru á útleið og gengu í einfaldri röð, Claire fremst, Holly í miðjunni og Kelly aftast. Hinar eru beinbrotnar og með margvíslega áverka eftir sprenginguna.

Þessi hafa verið nafngreind: Olivia Campbell, 15, Kelly Brewster, 32, Saffie Rose Roussos, 8, Georgina Callander, 18, John Atkinson, 28, og vinkonurnar Alison Howe og Lisa Lees.

Árásarmaðurinn, Salman Abedi, er fæddur í Manchester og er hann af líbönskum uppruna. Hann lagði stund á nám í viðskiptafræði við Salford-háskóla, en lauk náminu aldrei. 23 ára gamall karlmaður sem var handtekinn í Chorlton, suður af Manchester, í gærmorgun, er enn í haldi lögreglu en talið er að hann sé bróðir Abedi, Ismael Abedi, en lögregla hefur ekki staðfest það.

Líkt og fram hefur komið hefur hæsta viðbúnaðarstigi verið lýst yfir í Bretlandi, en það er samstarfshópur sérfræðinga á sviði hryðjuverka sem lýsir því yfir, en það hefur aðeins tvisvar áður verið gert í Bretlandi. Um sama viðbúnaðarstig er að ræða og hefur verið í Frakklandi allt frá árásunum á ritstjórnarskrifstofu Charlie Hebdo í janúar 2015.

Guardian

BBC 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert