Vilja frekar Solberg sem forsætisráðherra

Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs.
Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs. mbl.is/Styrmir Kári

Fleiri Norðmenn vilja sjá Ernu Solberg, leiðtoga Hægriflokksins, sitja áfram sem forsætisráðherra eftir þingkosningarnar í Noregi 11. september en þeir sem vilja að Jonas Gahr Støre, leiðtogi Verkamannaflokksins, taki við embættinu.

Þetta kemur fram á fréttavef norska ríkisútvarpsins NRK en lengi vel mældist stuðningur við Støre meiri. Munurinn minnkaði í sumar en í ágúst hefur Solberg farið fram úr honum. Þannig vilja 46,8% Solberg áfram í embætti en 36,8 að Støre taki við.

Þau Solberg og Støre eru leiðtogar stærstu flokkanna sem bjóða fram í kosningunum og munu mætast í kappræðum í sjónvarpssal í kvöld. Haft er eftir Støre að stefna Verkamannaflokksins sé góð og að það sem máli skipti séu kosningarnar.

Fylgi við Verkamannaflokkinn mælist hins vegar meira en Hægriflokksins en mjótt er hins vegar á mununum á milli bláu og rauðu blokkarinnar, það er miðju- og hægriflokkanna annars vegar og miðju- og vinstriflokkanna hins vegar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert