Fimm vinir um fimmtugt létust

Árásarmaðurinn keyrði inn á hjólreiðagötu um klukkan 15 að staðartíma …
Árásarmaðurinn keyrði inn á hjólreiðagötu um klukkan 15 að staðartíma i gær. AFP

Fimm af þeim átta manns sem létust í árásinni á Man­hatt­an í New York í gær voru vinir frá Argentínu. Þeir voru tæplega fimmtugir. Þeir voru í níu manna vinahóp sem fagnaði 30 ára útskriftarafmæli úr tækniháskólanum í Rosario í Argentínu í New York. Utanríkisráðuneyti Argentínu hefur staðfest lát þeirra. BBC greinir frá. 

Einn af þeim 11 manns sem særðust al­var­lega þegar árás­armaður­inn, Sa­yfullo Saipovhann, ók yfir hjól­reiðafólk og gang­andi veg­far­end­ur var einnig í vinahópnum. Hann liggur þungt haldinn í sjúkrahúsi.  

Einn hinna látnu vina, Ariel Erlij sem var eigandi járnfyrirtækis, tók þátt í að greiða kostnað ferðarinnar fyrir vinahópinn til borgarinnar, að sögn argentínskra miðla. 

Þriggja daga sorg hefur verið lýst yfir í borginni Rosario í Argentínu. 

Annað fórnarlamb árásarinnar var Anne-Laure Decadt, 31 árs frá Belgíu. Þrír Belgar til viðbótar særðust í árásinni. Ekki hafa verið gefin upp nöfn hinna tveggja til viðbótar sem létust í árásinni.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert