Skiltin eru tilvísun í raunverulegt morðmál

Frances McDormand í hlutverki hinnar örvæntingarfullu móður í myndinni The …
Frances McDormand í hlutverki hinnar örvæntingarfullu móður í myndinni The Billboards outside Ebbing, Missouri.

Þó að handrit kvikmyndarinnar Three Billboards Outside Ebbing, Missouri, sé skáldskapur á söguþráðurinn sér ákveðna hliðstæðu í raunveruleikanum. Í myndinni er fjallað um baráttu móður fyrir því að grimmilegt morð dóttur hennar sé rannsakað til hlítar í smábæ í Missouri. Hún ákveður að setja upp þrjú auglýsingaskilti til að vekja athygli almennings á málinu. Frances McDormand hlaut Óskarsverðlaun í gær fyrir túlkun sína á móðurinni.

Það var einmitt þetta sem Fulton-fjölskyldan í smábænum Vidor í Texas gerði eftir að dóttirin lést að því er í fyrstu var talið bílslys. Foreldrar Kathy Page hafa hins vegar alla tíð verið sannfærð um að hún hafi verið myrt. Allt frá árinu 1991 hafa þeir því sett upp auglýsingaskilti með kröfum um að lögreglan finni morðingja dóttur þeirra. 

„Pabbi minn veitti kvikmyndagerðarmönnunum innblástur með því að setja þessi skilti upp,“ segir Sherry Valentine, systir Page, í samtali við Inside Edition. 

Page var gift tveggja barna móðir. Hún fannst látin í flaki bíls um 200 metrum frá heimili sínu. Í fyrstu var talið að um bílslys hefði verið að ræða en er rannsókn lögreglu hófst kom í ljós að Page hafði verið kýld og nefbrotin og svo kyrkt. Sýnt var fram á að líki hennar hefði að því loknu verið komið fyrir í bílflakinu. Blóð fannst á nærfötum hennar og á húð en ekkert á utanyfirfötum hennar. 

Allar götur síðan hafa kröfur um ítarlegri rannsókn á morðmálinu blasað við á skiltunum fyrir utan Vidor. Fjölskyldan vill að hlustað sé á hana og að réttlæti náist í málinu.

Ýmsir hafa legið undir grun í gegnum tíðina en nú hafa augu rannsakenda enn og aftur beinst að Steve Page, eiginmanni Kathy Page. Þau bjuggu ekki saman er morðið var framið en voru gift í þrettán ár. Kathy Page vildi skilnað.

Auglýsingaskiltin sem fjölskylda Kathy Page setti upp fyrir utan smábæinn …
Auglýsingaskiltin sem fjölskylda Kathy Page setti upp fyrir utan smábæinn í Texas.

„Ég spurði Steve hvort hann hefði myrt systur mína,“ segir Jim Fulton, bróðir fórnarlambsins. „Hann sagði að hann hefði aldrei getað skaðað hana. Að hann hafi elskað hana.“

Steve Page hefur ekki verið ákærður og heldur fram sakleysi sínu. En faðir Kathy og systkini hennar eru sannfærð um sekt hans.

„Ég held að hann hafi ekki ætlað að drepa hana,“ segir Diane Daigle, systir Kathy Page. „Ég held að hann hafi misst stjórn á sér.“

Málið enn í rannsókn

Rod Carrol er lögreglustjóri í Vodor, sá fimmti sem sinnt hefur því starfi frá því að Kathy lést. 

„Við höfum alltaf haft einhvern grunaðan,“ segir hann. „Ég get ekki farið út í smáatriði um hvað er sannleikur og hvað eru sögusagnir. Ég skil að fjölskyldan sé reið.“

Faðir Page er nú orðinn 86 ára. Hann fer að gröf dóttur sinnar nær hvern dag. Hann segir að auglýsingaskilti verða uppi þar til málið leysist. Hann segist hafa varið gríðarlegum fjármunum síðustu 25 árin í auglýsingaherferðina. 

Í frétt Inside Edition segir að auglýsingaskiltin hafi fangað athygli breska handritshöfundarins og leikstjórans Martin McDonagh er hann var á ferðalagi um Texas fyrir um tveimur áratugum. Skiltin eru því sögð hafa verið innblásturinn að kvikmynd hans, Three Billboards Outside Ebbing, Missouri. 

„Á skiltunum voru reiðileg og sársaukafull skilaboð til lögreglunnar um glæpinn,“ rifjar McDonagh upp. „Nafn myndarinnar kom út frá þessum skiltum og hugmyndin að myndinni kom frá þeim en þau viku ekki úr huga mér í fleiri ár. Hvers konar sársauki fær fólk til að grípa til slíkra ráða? Það þarf mikinn kjark - og mikla reiði til.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert