Ráðist á Nassar í fangelsinu

Larry Nassar fékk þrjá lífstíðardóma fyrir kynferðsbrot sín.
Larry Nassar fékk þrjá lífstíðardóma fyrir kynferðsbrot sín. AFP

Larry Nassar, fyrrverandi læknir bandaríska landsliðsins í fimleikum, sem misþyrmdi hundruðum stúlkna og kvenna kynferðislega um áratugaskeið, vill nú fá mál sitt tekið upp að nýju.

Hann segist hafa orðið fyrir árás í alríkisfangelsinu þar sem hann dvelur nú og að dómarinn sem dæmdi í máli hans hafi verið hlutdrægur, en Nassar fékk þrjá lífstíðardóma fyrir brot sín, gegn tugum kvenna.

Gagnrýndi Nassar, sem játaði að hafa misþyrmt íþróttakonum áratugum saman, dómarann Rosemarie Aquilina og sagði hana hlutdræga.

Aquilina rataði í fjölmiðla með beinskeyttum orðum sem hún lét falla við réttarhöldin, sem og fyrir hvatningu sína í garð hvers og eins þeirra 160 fórnarlamba Nassars sem báru vitni fyrir réttinum.

„Tilraunir dómarans Aquilina til að skrímslavæða Nassar fyrir öllum heiminum tókust. Það var ráðist á hann í dómshúsi Eaton-sýslu og það var ráðist á hann í alríkisfangelsinu,“ skrifaði lögfræðingur Nassars í beiðninni.

Faðir eins fórnarlambs læknisins hljóp í átt að honum er réttarhöldin áttu sér stað, en var stöðvaður af lögreglu. Lögfræðingurinn tjáði sig ekki frekar um meinta árás gegn honum innan fangelsismúranna.

Aquilina dæmdi Nassar til 40 - 175 ára fangelsisvistar og sagði við hann: „Þú átt ekki skilið að ganga nokkurn tímann út fyrir fangelsismúrana aftur.“

„(Aquilina) sagði sjálf að hún óskaði þess að hún gæti dæmt Nassar til grimmilegrar og óvenjulegrar refsingar og lýsti yfir væntingum sínum til þess að honum yrði unnið mein í fangelsi og loks lýsti hún því yfir að hún væri að undirrita „dauðadóm“ hans,“ sagði lögfræðingurinn enn fremur.

Mun hann fara fram á að Aquilina segi sig frá málinu er endurupptökubeiðnin verður tekin fyrir í næstu viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert