31 þúsund úkraínskir hermenn drepnir

Volodimír Selenskí, for­seti Úkraínu, greindi frá því á blaðamannafundi í dag að 31 þúsund úkraínskir hermenn hafi verið drepnir á þeim tveimur árum sem stríðið hefur geisað.

„31 þúsund úkraínskir hermenn hafa látið lífið í stríðinu. Ekki 300 þúsund eða 150 þúsund, eða hvað sem að Pútín og lygahringur hans segja,“ sagði Selenskí.

Í desember sagði Ser­gei Shoígú, varn­ar­málaráðherra Rúss­lands, að 383 þúsund úkraínskir hermenn hefðu verið drepnir eða særst í átökunum. 

Úkraínskur hermaður heldur á mynd af félaga sínum sem lést …
Úkraínskur hermaður heldur á mynd af félaga sínum sem lést í átökunum við borgina Avdívka. AFP/Roman Pilipey

Sigur „háður“ Vesturlöndum  

Selenskí sagði að sigur væri „háður“ stuðningi Vesturlanda og sagðist vona að Bandaríkjamenn myndu samþykkja mikilvæga hernaðaraðstoð. 

Forsetinn biðlaði til Vesturlanda að auka möguleika Úkraínu til sigurs á ráðstefnu þar sem þess var minnst að tvö ár eru frá upphafi stríðsins. 

„Hvort að Úkraína mun tapa, hvort það verður erfitt fyrir okkur, og hvort að mannfall verði mikið er háð ykkur, háð bandamönnum okkar, á Vesturlöndum,“ sagði Selenskí. 

Úkraínski herinn glímir nú við skort á skotfærum eftir að 60 milljarða hernaðaraðstoð strandaði í bandaríska þinginu. Selenskí sagðist bjartsýnn á að aðstoðin myndi berast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert