Segja yfir 50 þúsund hermenn fallna

Stríðið í Úkraínu hefur kostað tugþúsunda mannslífa.
Stríðið í Úkraínu hefur kostað tugþúsunda mannslífa. AFP/Anatolí Stepanov

Yfir 50 þúsund rússneskir hermenn hafa fallið í innrásarstríðinu í Úkraínu. 

Breska ríkisútvarpið greinir frá og kveðst geta staðfest þessar upplýsingar.

Í umfjöllun miðilsins segir að á öðru ári stríðsins hafi tíðni dauðsfalla hækkað umtalsvert. Þannig var mannfallið 25% meira en árið á undan.

BBC í Rússlandi, sjálfstæði rússneski miðillinn Mediazona og sjálfboðaliðar hafa fylgst með og skráð dauðsföll frá því að innrásin hófst í febrúar árið 2022.

Hafa teymin m.a. notast við upplýsingar úr opinberum gögnum, fjölmiðlum og samfélagsmiðlum.

Sendir út í opinn dauðann

Yfir 27.300 rússneskir hermenn féllu á öðru ári stríðsátakanna, samkvæmt greiningu BBC. 

Eins og áður sagði eru það umtalsvert fleiri en féllu á fyrsta árinu. Getur það m.a. skýrst af breyttri aðferðafræði Rússa í stríðinu á seinna árinu þar sem fjöldi hermanna hefur verið sendur út í opinn dauðann í fremstu víglínu til að þreyta úkraínskar hersveitir og koma upp um staðsetningu þeirra.

Átta sinnum hærri

Heildarfjöldi dauðsfalla frá upphafi átakanna, sem BBC kveðst geta staðfest, er átta sinnum meiri en Moskva hefur gefið út.

Þá er ekki talið ólíklegt að dauðsföllin séu mun fleiri en 50 þúsund. Þess ber að geta að greining BBC nær ekki yfir dauðsföll vígamanna í Donetsk- og Lúhansk-héraði í austurhluta Úkraínu.

Líklega fleiri fallnir en Selenskí vill gefa upp

Yfirvöld í Úkraínu hafa sömuleiðis haldið spilunum þétt að sér hvað varðar upplýsingar um mannfall meðal hermanna.

Í febrúar sagði Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, að 31 þúsund úkraínskir hermenn væru fallnir. Njósnagögn frá Bandaríkjunum benda þó til þess að fjöldinn sé mun meiri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert