Skoða vopnahléstillögu Ísraelsmanna

Í nótt gerði ísraelski herinn þrjár loftárásir á borgina Rafha …
Í nótt gerði ísraelski herinn þrjár loftárásir á borgina Rafha á suðurhluta Gasa. AFP

Hryðjuverkasamtökin Hamas greindu frá því í dag að tillaga Ísraelsmanna til vopnahlés á Gasa væri til skoðunar. Í gær kom egypsk sendinefnd til Ísraels í þeim tilgangi að koma viðræðum aftur af stað.

Egypskir fjölmiðlar greindu frá því að „framfarir“ hefðu orðið í viðræðunum. 

Í nótt gerði ísraelski herinn þrjár loftárásir á borgina Rafha á suðurhluta Gasa. Að minnsta kosti tólf létust. Hundruð þúsunda Palestínumanna dvelja í borginni eftir sjö mánuði af stríðsástandi. 

Khalil al-Hayya, varaforseti pólitíska hluta Hamas, greindi frá því í yfirlýsingu að samtökin hefðu fengið tillögu Ísraelsmanna afhenta af sendinefndum Katar og Egyptalands 13. apríl. 

„Samtökin munu skoða tillöguna og eftir að hún hefur verið skoðuð munu samtökin gefa út svar.“

Hamas hefur áður krafist varanlegs vopnahlés. Ísraelsstjórn hafnaði þeirri tillögu hins vegar. 

Egyptar, Katarar og Bandaríkjamenn hafa reynt með milligöngu að koma á vopnahléi frá því að átökin hófust 7. október. Í nóvember náðist vopnahlé sem stóð yfir í viku. Þá voru 80 ísraelskir gíslar látnir lausir og 240 Palestínumenn látnir lausir úr ísraelskum fangelsum. 

1.170 manns létust í hryðjuverkaárás Hamas 7. október. Ísraelsmenn telja að 129 séu enn í haldi Hamas á Gasa, 34 þeirra eru taldir látnir. 

Rúmlega 34 þúsund Palestínumenn hafa látist á Gasa frá því að stríðið hófst, að sögn Hamas.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert